Það tók mig langan tíma að uppgötva að slæm grindagliðnun á sínum tíma gæti dregið dilk á eftir sér. Ég rek hér mína sögu nokkuð ítarlega, og eflaust er þetta frekar leiðinleg lesning en það hefði skipt mig sköpum að ná þessari tengingu fyrr. Það gætu því einhverjar konur haft gagn af.
Fyrri meðganga góð- sú seinni síðri
Fyrri meðgangan mín var auðveld, ég fann varla fyrir henni, var í mjög góðu formi, vann á hjúkrunarheimili og við skúringar. Fæðingin var erfið og þurfti sogklukku til að ná barninu út. Eins og venja er, eða var allavega, var vel fylgst með barninu en ég fékk engar leiðbeiningar um æfingar eða endurhæfingu og ég vissi ekki einu sinni hvað grindarbotn var. Þremur árum síðar varð ég aftur ólétt, þá búsett í Danmörku. Ég var í raun ekki búin að ná mér almennilega eftir fæðingu fyrra barns. Ég vann við heimahjálp og fór að finna fyrir verkjum mjög snemma á meðgöngu sem ég skildi ekkert í. Ég fór til kírópraktors sem blessunarlega tók ekki röngtenmynd þar sem ég var ófrísk en hann hnykkti mig til og frá án árangurs. Ég fór líka til heimilislæknis og fékk þá „greiningu“ að ég væri með vöðvaspennu í rassvöðvum „muskelspænding í ballerne“. Vildi læknirinn helst kenna því um að ég væri að hjóla og ráðlagði mér að ganga frekar. Mér versnaði eftir sem á leið og man eftir einu skipti þar sem ég neyddist til að liggja á gólfinu í vinnunni því ég bókstaflega gat ekki staðið. Ekki svo mikið vegna verkja, ég bara stóð ekki undir mér. Þá fannst mér mun auðveldara að hjóla en ganga andstætt ráðleggingum læknisins.
Greining að heiman
Greininguna fékk ég loks eftir ótrúlegum krókaleiðum. Ég var að segja vinkonu minni heima frá þessu ástandi mínu og hún segir einkenni mín líkjast mjög einkennum sameiginlegrar vinkonu okkar sem var ófrísk og greind með grindarlos/grindargliðnun. Ég fór beint á næsta bókasafn og las mér til (internetið var varla komið til sögunnar á þessum tíma) og þar með var gátan leyst. Öll einkennin stemmdu eins og flís við rass. Ég furðaði mig á vanþekkingu læknisins og kíropraktorsins en var þó glöð að hafa fundið út úr þessu. Ég þurfti að hætta að vinna og fór aftur til heimilislæknisins til að fá vottorð og beiðni í sjúkraþjálfun. Mér var ekki vísað á neinn ákveðinn sjúkraþjálfara svo ég fór til eins í nágrenninu. Hann var ótrúlega ráðalaus eitthvað og ég gafst upp eftir nokkur skipti. Komst svo að því síðar að ég hefði átt að fara til, eða réttara sagt, mér hefði átt að vera beint til sjúkraþjálfara sem hefði sérþekkingu á þessu sviði. Ég vissi ekki að til væri sérstakt belti sem styður við mjaðmagrindina og ég gerði mér enga grein fyrir að endurhæfing eftir fæðingu væri mikilvæg. Ég fæddi stórt barn sem var síðan eflaust ekki til að bæta ástandið.
Leyfa liðböndum að jafna sig
Mér gekk mjög illa að jafna mig eftir þessa fæðingu og kenndi því um ég væri ekki í nógu góðu formi. Ég reyndi að skokka, fór í eitthvað furðu jóga sem sjálf Madonna mun hafa stundað, fór í alls kyns tíma í ræktinni, pallatíma sem þá voru í tísku og m.a. í einn spinning tíma en fékk verk í mjóbak/mjaðmir eftir hann.
Það var síðan ekki fyrr en fimm eða sex árum eftir að sonur minn fæddist, (og óteljandi nuddum og tveimur sjúkraþjálfurum síðar) að ég fer til osteopata. Hann skoðar mig og kemur með þá greiningu að liðböndin þurfi að jafna sig og ráðleggur mér að hætta að teygja tímabundið. Hvorki ég né aðrir höfðu fram að þessu tengt minn vanda við grindagliðnunina. Það virðist litið þannig á að þegar fæðing er um garð gengin jafni líkaminn sig að sjálfsdáðum. Ég fylgdi þessum ráðum en hafði einmitt verið í jóga því ég var alltaf svo stíf á mjaðmasvæðinu. Ég fann hreyfingu sem hentaði og á nokkrum árum kom ég mér í fínt form. Af og til fann ég fyrir mjóbaki/mjaðmagrind en ekkert sem ég gat ekki lifað með. Eftir því sem tíminn leið gleymdi ég grindagliðnuninni, eða taldi hana heyra sögunni til, þar til mörgum árum síðar þegar hún kom og beit mig í rassinn.
Hér er stutt og góð lýsing á grindagliðnun. Það sem mér fannst einkennandi þegar ég var með grindagliðnun, árin á eftir fæðinguna og svo aftur þegar spjaldliðsvesenið byrjaði, var að ég fann aldrei verk þegar ég gerði æfingu/hreyfingu en daginn eftir var ég slæm. Ég vissi aldrei nákvæmlega hverju líkaminn var að mótmæla og tengi mjög vel við það sem hér er sagt:
„Það sem einkennir verki frá liðböndum er að verkurinn kemur eftir álag. Einkennin geta því verið breytileg frá degi til dags allt eftir því hvert álagið hefur verið. Þetta þýðir að oft á konan erfitt með að tengja verkina við það sem hún hefur verið að gera“.
Þetta er í raun mjög mikilvægt púsl í mínum einkennum sem flaug undir radarinn. Ef ég var verri eftir æfingu eða líkamlega hreyfingu (fjallgöngur) var litið svo á að ég þyrfti meiri styrk og þyrfti að gera meiri æfingar.
Það er líka mjög áhugavert hvað liðböndin fengu litla athygli, líkt og þau hafi ekki mjög miklu hlutverki að gegna og að vöðvarnir séu að vinna í einhverju tómarúmi. Þá virðist vera óskiljanlegur og útbreiddur misskilningur að liðböndin í kringum spjaldliði (sacral ligaments eða pelvic ligaments) séu svo sterk að þau geti ekki laskast nema fólk lendi í slæmu slysi.
Skiptir gömul grindagliðnun máli?
Þegar verkir fóru að gera vart við sig árið 2015-2016 hafði ég í raun enga hugmynd um hvað væri í gangi og það sama átti við um alla þá sem ég hitti næstu árin. Ég sagði alltaf frá því að ég hefði fengið slæma grindagliðnun á sínum tíma án þess þó að hafa hugmynd um hvort það skipti einhverju máli eða ekki. Stundum var mér sagt hreint út að saga um grindagliðnun skipti engu máli, í öllum tilfellum af körlum reyndar. Ég býst við að ef ég hefði mætt í heilbrigðiskerfið með verki í hné og ætti sögu um hnjask á hné frá fyrri tíma hefði engum dottið í hug að segja að það skipti engu máli. Málið er að konur geta glímt við afleiðingar grindagliðnunar ár og áratugi eftir meðgöngu. Hér er rannsókn sem í stuttu máli sýnir að ein af hverjum tíu konum sem fá grindagliðnun á meðgöngu glíma við verki 11 árum síðar.
Það var ekki fyrr en ég fór í meðferðina í Hollandi, þremur og hálfu ári eftir að vandræðin fóru að kræla á sér, sem ég var spurð út í meðgöngur og fæðingar í ítarlegu viðtali. Þá loksins skildi ég hvers vegna mér hafði versnað við ákveðnar æfingar og hreyfingu. Síðar kom í ljós að tvær vinkonur mínar, sem fengu grindargliðnun á sama tíma og ég, lýstu nákvæmlega sömu einkennum. Ólíkt mér fengu þær góða ráðgjöf strax í upphafi og hafa alltaf vitað hvaða hreyfingu væri betra að forðast.
Vel að verki staðið í Frakklandi
Það að ganga með og fæða barn er ekkert smávegis álag og má segja að mikið sé lagt á líkama kvenna til að fjölga megi mannkyni. Konur fæða þess utan hlutfallslega stór börn miðað við aðra nákomna ættingja okkar af apakyni. Þekking á því hvaða áhrif meðganga og fæðing getur haft á líkamann er þó í engu samræmi við umfangið. Ég held að megi fullyrða að ástæðan sé fyrst og fremst sú að konur ganga með börn og þar sem læknisfræðin er karllæg fær stoðkerfisvandi vegna meðgöngu ekki þá athygli sem hann á skilið. Nema í Frakklandi. Þar í landi býðst öllum konum sem fætt hafa börn að fara til sjúkraþjálfara sem er sérhæfður í grindarbotni, þeim að kostnaðarlausu. Þetta er til eftirbreytni. Við ættum að taka Frakka okkur til fyrirmyndar og tryggja að allar konur fái fræðslu um mikilvægi grindarbotnsvöðva og aðstoð við að þjálfa þá eftir fæðingu. Þá getur skipt sköpum að fá réttar ráðleggingar um æfingar og hreyfingu ef meðganga eða fæðing hefur verið erfið. Slík ráðstöfun sparar kostnað í heilbrigðiskerfinu til lengri tíma og konur eiga það einfaldlega skilið að fá hjálp eftir fæðingu og lifa góðu lífi án stoðkerfisverkja. Sjá m.a. umfjöllun hér
Verðandi mæður fá góða þjónustu á meðgöngu og tölfræðin sýnir að ungbarnadauði á Íslandi er með því lægst sem þekkist. En það er ekki síður mikilvægt að bjóða nýbökuðum mæðrum góða þjónustu og tryggja að þær nái sér eftir átökin. Það er ekki hægt að ætlast til þess að konur fari í eitthvað sjálfsnám í þessum fræðum ofan á allt annað og það er ekki svo – ég tala af reynslu – að líkaminn bara finni út úr þessu. Þá er mjaðmagrind kvenna vel til þess fallin að ganga með börn en að sama skapi eru meiri líkur á að konur glími við mjaðmagrindarverki. Konur eru t.d. í mjög miklum meirihluta þeirra sem fara í aðgerðir til að festa spjaldlið (SI-fusion). Konum hættir frekar til að glíma við stoðkerfisverki en körlum og eflaust eru ástæðurnar af ýmsum toga en það er kannski ekki út í hött að álykta að meðgöngur og fæðingar hafi þar áhrif.
Hér má sjá finna góðann bækling um grindargliðnun á íslensku.
Hér er góð grein eftir Britt Stuge, norskan sjúkraþjálfara, sem er þekktur sérfræðingur á þessu sviði. Hún bendir m.a. á að æfingameðferðir geti gert illt verra og kallar eftir aukinni fræðslu og þekkingu á þessu sviði.