Hanna somatics, Feldenkrais og fleira

Styrktaræfingar eru mjög algengt meðferðarform og virðist jafnvel litlu skipta hvort fólk sé í góðu formi fyrir. Til eru þeir sem telja að stoðkerfisverki megi frekar rekja til vanvirks hreyfimunsturs og of mikillar vöðvaspennu en skorts á vöðvastyrk. Það getur þó verið hægara sagt en gert að slaka á vöðvum sem hafa verið í spennuástandi í langan tíma. Fyrir suma gæti það þó verið rétta leiðin. 

Í æfingameðferð við brjósklosi (sem var um tíma talið rót vandans) stífnaði ég svo upp í mjóbakinu að ég það var eins og steypu hefði verið hellt inn í bakið á mér. Ef ég beygði mig fram var eins og húðin væri nokkrum númerum of lítil sem leiddi mig inn á alls kyns fasíupælingar. Þarna var ég að gera mjög mikið af sértækum mjóbaksæfingum sem áttu að vera allra meina bót en gerðu þó lítið annað en auka á spennu og stífni. Nudd, graston, teygjur og þess háttar höfðu ekkert að segja.

Einhverju sinni var ég að gúggla og rakst þá á blogg eftir Hanna Somatics kennara, Mörthu Peterson. Það sem ég las hljómaði mjög skynsamlega og ég fékk sendar ókeypis æfingar. Ég byrjaði  fyrstu æfingu „Arch & flatten“. Markmiðið er að setja tiltekna vöðva í spennu og finna hvernig sú tilfinning er og losa svo um spennuna ofurhægt og með fullri athygli. Í Arch & flatten er áherslan á mjóbaksvöðvana (back extensors geri ég ráð fyrir). Æfingin tók svona tíu mínútur. Ég stóð upp og fann þvílíkan mun á mjóbakinu sem mér fannst með nokkrum ólíkindum. Ég bjóst við að næsta dag væri allt komið í sama farið en svo var ekki. Stífnin í mjóbaki var nokkurs konar auka-vandamál, þ.e. ef það hefði verið minn eini vandi hefði ég ekki kvartað. Það var samt hressandi að ná að losa um þessa spennu með jafn einföldum hætti og ég keypti prógram með fullt af æfingum. Ég komst þó að því að sumar æfingarnar hentuðu mér ekki, svo sem snúningar og þess háttar, en sumar æfingarnar geri ég reglulega. 

Thomas Hanna er maðurinn á bak við Hanna somatics. Hann sótti m.a. innblástur í Feldenkrais æfingar og kenningar Hans Selye um stress/streitu og gott ef ekki líka Alexander tækni. Í ofur einföldu máli gengur kenningin út á að óþarfa vöðvaspenna geti byggst upp í líkamanum og valdið verkjum. Þetta getur til dæmis gerst vegna streitu, áverka eða einhæfrar hreyfingar. Spennuástand í vöðvum sem er viðvarandi getur verið tilkomið vegna þess að heilinn er hættur að greina muninn á milli spennu og slökunar. Markmiðið með sérstökum Hanna somatics æfingum er að þjálfa heilann til að finna þennan mun í gegnum ákveðnar hreyfingar. Þannig geti líkaminn, eða taugakerfið réttara sagt, undið ofan af vitleysunni. Til að ná þessari tengingu milli heila og vöðva er nauðsynlegt að fara inn í líkamann ef svo má orða, finna hvað er að gerast og einbeita sér að því að slaka á vöðvum sem þurfa ekki að vera í spennuástandi, en ekki síst að þjálfa heilann í að finna muninn á spennu og slökun. 

Hanna somatics er því í raun heilaleikfimi og æfingarnar geta verið allt að því ósýnilegar því það gerir líka gagn að ímynda sér hreyfinguna eða hafa hana mjög litla.  

Mér finnst þessi fræði ótrúlega skynsamleg og hefði viljað kynnast þessum æfingum fyrr. Ég held að þær geti í raun hentað öllum óháð líkamlegu ástandi.

Ég keypti prógramm á somaticmovementcenter.com sem er fínt og er á sanngjörnu verði. Mér finnst margar æfingar mjög fínar og horfi fram hjá því hvað Sarah talar fjálglega um að hin og þessi æfing lækni allt milli himins og jarðar. Ég á vinkonur sem hafa náð miklum bata með Hanna somatics, sérstaklega þær sem eru með verki sem virðast ekki eiga sér neinar skýringar.

Ég hef farið í tíma hjá konu sem býr í Kanada (Zoom tímar) og heitir Debra. Hún náði sjálf mjög miklum árangri með Hanna somatics æfingum. Hún var eiginlega komin í hjólastól vegna verkja sem engin skýring fannst á. Hún fann Hanna somatics kennara sem hjálpaði henni mikið en hún byrjaði á öræfingum og gafst ekki upp þótt hún fyndi lítinn árangur lengi vel. Samhliða beitti hún öllum ráðum til að róa taugakerfið og vinna í að ná verkjum niður í anda Lorimer Mosely og fleiri Pain science fræðimanna. 

Það eru eflaust engar töfralausnir þegar kemur að stoðkerfisverkjum og það sem hentar einum hentar ekki öðrum. Æfingar eins og Hanna somatics eru þó að mínu mati alls ekki það vitlausasta sem fólk gæti prufað. Þær virðast henta fólki sem er verkjað og komið í ástand þar sem taugakerfið er í yfirsnúningi. Allt sem getur róað kerfið er gott og flestar æfingarnar ættu að vera öruggar, sér í lagi ef hreyfingarnar eru nógu litlar. Þá er lögð áhersla á öndun sem oft gleymist. Ef fólk er mjög slæmt er sniðugt að vera með leiðbeinanda eða byrja ofurhægt og gera litlar hreyfingar.

Sjálf fékk ég tak í efra bak við að gera „back lift“ en það var hugsanlega vegna þess að ég hafði legið svo mikið á bakinu og unnið þannig, upprúlluð eins og rækja, sem hafði eðlilega ekki góð áhrif á efra bak og háls. 

Ég hef ekki fundið neinn leiðbeinanda hér á landi, hvort heldur sem er í Hanna Somatics eða Feldenkrais en þeir gætu þó verið til. Í dag vinna margir leiðbeinendur í gegnum Zoom eða aðra fjarfundatækni. Ég hitti einu sinni Hanna somatics kennara í eigin persónu, í Hollandi, en ég verð að segja að það er alls ekki svo mikill munur á því og í gegnum Zoom. Leiðbeinandinn/kennarinn er hvort eð er ekki að atast neitt í skjólstæðingnum heldur snýst þetta um að leiða viðkomandi í gegnum ákveðnar hreyfingar. Þá er hægt að finna mikið efni á YouTube og bæði Marta og Sarah eru með myndbönd sem allir geta nálgast. Feldenkrais byggir á sömu hugmyndafræði og er jafnvel útbreiddari en Hanna somatics.

Hér að neðan er æfingin sem kom mér á bragðið

Á þessari síðu er þessi mini kúrs sem ég tók og er ókeypis. Á sömu síðu undir „About“ og svo „Articles“ má sjá margar áhugaverðar greinar. Mikilvægt samt að hafa í huga að meðferðaraðilar hafa gjarnan ofurtrú á þeirri aðferð sem þeir beita. Það er því um að gera að taka öllu með fyrirvara og hlusta á líkamann. 


by

Start a Blog at WordPress.com.