Eins og þeir þekkja sem glíma í einhvern tíma við bak/mjaðmaverki geta greiningar farið í ýmsar áttir og má gjarnan tala um ákveðin tímabil. Eitt slíkt tímabil sem varði í svona 2-3 mánuði, og dúkkar reyndar upp af og til, er „Labral tear tímabilið“. Það hófst á því að ég hitti osteopata sem ég taldi að væri sérfróður um spjaldliði og kynni muscle energy technique. Eftir nokkuð yfirborðskennda skoðun þar sem m.a. var kíkt á styrk í hægri rassvöðva stakk viðkomandi upp á því að ég væri með labral tear eða rifna liðvör á mjaðmalið. Hugsanlega var sá þáttur sem helst beindi þessum aðila á labral tear brautina sá að ég var með smá verk í nára við innsnúning.
Ég fór að lesa mér til um labral tear því ég hafði aldrei heyrt um það fyrr. Í afar einföldu máli þá gerist það að liðvör (sem mér sýnist helst líkjast „pakkningu“ utan um mjaðmaliðinn) rifnar aðeins. Þetta getur líka gerst á axlarlið og er mun þekktara. Talið er að mikið álag geti valdið þessu (t.d. hjá íþróttafólki) en líka geta verið einhverjar beinnibbur sem erta liðvörina og valda verk.
Þessar rannsóknir mínar juku ekki á bjartsýnina. Bæði getur verið erfitt að greina labral tear og einkenni mín ekki dæmigerð. Það virðist vera hægt að gera við liðvör, hefta hana eða sauma saman og skafa burt tægjur sem eru til vandræða en aðgerðirnar skila ekki alltaf tilætluðum árangri. Ég ákvað að fara í þar til gerða myndatöku, ég var í Bretlandi og auðvelt að fá tíma, og ég borgaði úr eigin vasa. Ég vissi ekki hvort gerðar væru svokallaðar arthrogram myndgreingar heima og ákvað að taka enga áhættu með það. Ég greiddi jafn mikið fyrir myndatöku í 3 teslu MRI tæki (og þar auki þurfti að sprauta skyggniefni inn í mjaðaliðinn fyrir myndatöku), og ég hafði greitt hér heima fyrir sterasprautu í spjaldlið ári áður eða 70.000 kr. Þótt ég sæi vissulega eftir peningnum fannst mér þessi myndgreining ekki mjög dýr miðað við allt og allt.
Niðurstaðan sýndi að það væru tvö labral tear á hægri hlið. Nú voru góð ráð dýr og hófst leit að einhverjum sem hefði vit á málum. Það reyndist ekki beint auðvelt frekar en nokkuð annað í þessu ferli öllu saman. Ég fékk hjálp frá vinkonu sem vinnur hjá Össuri og svo tókst mér að véla kunningja minn, heimilislækni, til að taka mig upp á sína arma. Nú beindust böndin að lækni í Orkuhúsinu. Ég fékk beiðni og beitti öllum brögðum til að komast að hjá honum en fyrir lá að hann væri að flytja úr landi.
Loksins greining
Ég fékk svo tíma og þarna hitti ég í fyrsta skipti bæklunarlækni sem raunverulega skoðaði mig, ýtti hér og þar, gerði test sem skapar verk í spjaldlið og ýtti t.d. á lífbeinið sem enginn hafði gert áður. Þá voru teknar einhverjar myndir og allt skoðaði hann gaumgæfilega. Þetta voru alger nýmæli en eftir á að hyggja nákvæmlega það sem bæklunarlæknir á væntanlega að gera. Niðurstaðan læknisins var sú að líklega væri spjaldliður hægra megin rót vandans. Saga um grindargliðnun styrkti það, auk þess sem ég væri í liðugri kantinum. Hreyfigeta í mjaðmalið var góð og engir verkir í mjaðmaliðnum þannig séð. Eitthvað slit sást á myndunum en meira á vinstri hlið sem ég finn lítið fyrir. Þá sagði læknirinn að rifa á liðvör væri ekki endilega einkennagefandi en gæti gefið fyrirheit um slit í mjaðmaliðnum seinna meir. Ég man ekki nákvæmlega samskiptin en þau voru eitthvað á þessa leið og mér fannst bæði auðvelt að tala við lækninn, fann að hann hafði góða þekkingu, áhuga á að greina vandann og leita lausna.
Tilraunasprauta
Ákveðið var að sprauta sterum í mjaðmaliðinn til að athuga hvort það breytti einhverju, þ.e. hvort að dularfullur verkur (daufur verkur eins og aftan á setbeini) myndi hverfa. Í því fælist lítil áhætta og þá væri hægt að útiloka að verkurinn kæmi frá mjaðmaliðnum. Eftir þessa sprautu fékk ég aukaverkun sem lýsir sér í því að efnið kristallast og það veldur verk. Þetta var áhugavert ekki síst þar sem verkurinn sem ég fékk, og var klárlega í mjaðmaliðnum sjálfum, var nýstárlegur og eitthvað sem hafði aldrei upplifað áður. Mér fannst þar með hægt að leggja labral tear kenninguna til hliðar, en þó er vissulega ekki loku fyrir það skotið að vöðvaspennu og óstöðugleika á svæðinu megi rekja til mjaðmaliðs. Eflaust verða allir liðir á þessu þrönga svæði fórnarlömb ef einhvers staðar er veikleiki því allt hangir þetta jú saman.
Það var ákveðinn vendipunktur fyrir mig að hitta mjaðmalækninn. Þarna fékk ég í fyrsta skipti greiningu sem byggði á prófum og útilokunarðaferðum hjá lækni sem hafði góða þekkingu á mjaðmagrind. Það var andlega mikilvægt því það var næstum jafnslæmt að eiga við stoðkerfisvandann sjálfan og þá upplifun að vera flóknasta keis Íslandssögunnar. Ég er líka þakklát fyrir að hafa hitt lækni sem stökk ekki á greiningu út frá myndinni.
Læknirinn sagði mér að ef allt um þryti væru gerðar aðgerðir til að festa spjaldliðinn (SI fusion). Ég sagði honum þá að ég hefði komist í samband við sænskan lækni sem mér litist svo á að væri mikill sérfræðingur. Þá kom í ljós að stuttu áður hafði læknirinn einmitt setið ráðstefnu þar sem sænski læknirinn var með fyrirlestur. Vorum við sammála að sá sænski væri góður kostur ef til aðgerðar kæmi.
Gott blogg um labral tear
Á labral tear tímabili fann ég alveg frábæra bók og blogg eftir sænska konu, Önnu-Lenu Thomas sem fékk labral tear greiningu seint og um síðir og fór á endanum í labral tear aðgerð (liðspeglun). Ég keypti bókina „The entrepreneul patient“ (rafbók á amazon) sem er mjög vel skrifuð og greinilegt að hins sænska Anna-Lena býr yfir mikilli þekkingu. Mig minnir að sá sem gerði aðgerðina á henni hafi annað hvort verið Philippon sjálfur, eða læknir sem lærði hjá honum og leggur Anna- Lena mikla áherslu á að fólk fari til lækna sem eru mjög færir í þessum aðgerðum. Þær hafa færst í vöxt enda ekki ýkja langt síðan það var farið að greina labral tear í mjöðm. Þá er alltaf hætta á að farið sé offari og stokkið á greiningu sem virkar augljós út frá myndgreiningu.
Því miður sýnist mér að bloggið sé ekki lengur aðgengilegt (http://theentrepreneurialpatient.com) sem er synd því það virkilega gott en bókin virðist ennþá aðgengileg. Ef fólk glímir við verk í mjaðmalið og er að skoða labral tear aðgerð þá myndi ég mæla með því að lesa fyrst bókina hennar Önnu- Lenu.
Ég verð líka að benda á þennan stórgóðan pistil Stefáns vinar míns sem, líkt og svo margir sem lenda í stoðkerfisvanda, fór í gegnum ýmis tímabil.
Hér að neðan er mynd sem ég tók af netinu en hún er ein af fáum sem ekki sýnir sjálft sárið rautt á lit. Ég veit að ég er með rifu á liðvör en ég finn engan verk ekki frekar en margir sem ganga um með slit í skrokknum en finna ekki fyrir því. Ég kann því betur við myndir sem eru ekki með eldrauðum lit, eða jafnvel eldingum, til að undirstrika að slíku sliti geti fylgt verkir.

You must be logged in to post a comment.