Prolo/PRP meðferðir

Fljótlega eftir að mig fór alvarlega að gruna spjaldliðinn og mjaðmagrindina rakst ég á greinar um það sem kallast „regenerative medicine“ eða endurmyndunar-læknisfræði. Þarna undir falla prolotherapy, PRP, stofnfrumumeðferðir og hugsanlega eitthvað fleira.

Prolotherapy

Markmiðið meðferðarinnar er að reyna að hressa upp á liði, liðbönd, vöðvafestur, vöðva eða aðra mjúkvefi með því að sprauta ertandi efni á tiltekið svæði og kalla þannig fram bólguviðbrögð. Bólga er eðlilegt og nauðsynlegt viðbragð líkamans þegar við verðum fyrir áverka og hjálpar til við bata. Kenningin er að með því að framkalla bólgu á ákveðnu svæði – beinlínis vísvitandi – fari líkaminn í viðgerðargír. Efnið sem er notað er oftast blanda af vatni og dextrósa, blandan er gjarnan frá 15% dextrósa í 25%. Stundum eru fleiri ertandi efni notuð en þá í mjög litlu magni. Yfirleitt er talað um Hackett sem frumkvöðul á þessu sviði en hann setti m.a. fram kenningu um það hvernig áverkar á tilteknum liðböndum í spjaldhrygg kæmu fram sem verkir annars staðar, svokallað „referred pain“. Einnig bjó hann til kerfi yfir það hvar ætti að sprauta til að styrkja þessi tilteknu liðbönd. https://hhpfoundation.org/

Prolomeðferð er einnig notuð, eða jafnvel meira notuð, á svæði eins og axlir, hné, hásin, ökkla o.s.frv. og er þá yfirleitt sprautað í liðbönd og vöðvafestur, en líka í vöðva og inn í liði. Þessi aðferð er vel þekkt á spjaldliðs-/mjóbakssvæðinu en er mun umdeildari og erfiðari ef fólk er til dæmis að glíma við verki frá hálsi. Þar þarf að fara sérstaklega varlega.

PRP 

PRP er af aðeins öðrum meiði en markmiðið er það sama. PRP stendur fyrir platelet rich plasma. Þá er blóð tekið úr fólki og sett í þeytivindu og blóðvökvi og rauð blóðkorn skilin að. Blóðvökvanum er svo sprautað inn í vöðvafestu, vöðva eða á það svæði sem þarf lækningar við. Reyndar getur afgangur af vökvanum einnig verið notaður en hann kallast PPP (platelets poor plasma). 

Það eru til allskyns útfærslur á því hvernig PRP er útbúið. Margir meðferðaraðila, flestir kannski, notast við einfaldar þeytivindur á meðan sumar stofur eru með hágæðabúnað. Verðið er þá líka svimandi hátt, og er reyndar alltaf frekar hátt. Þá eru líka til læknar sem nota vefi sem eru ríkir af stofnfrumum (fitu/merg) í stað, eða með PRP, en ég hef lítið kynnt mér það. Þá er verðið líka komið upp úr öllu valdi.

Mér sýnist PRP meðferðir reyndar vera að færast aðeins yfir í „mainstream“ lækningar. Þær virðast helst hafa verið notaðar við íþróttameiðslum, þar eru líka peningarnir svo ekki óeðlilegt að þessi tækni spretti þaðan.

Margir læknar hafa stokkið á vagninn og þeim mun pottþétt fjölga og það er ekki erfitt að finna lækna sem til dæmis sprauta prolo/PRP í hné og axlir. Hins vegar er ekki hlaupið að því að finna lækna sem bæði kunna þessa tækni og hafa að sama skapi góða þekkingu á spjaldliðs-/mjaðmasvæðinu. 

Neuroprolo

Rétt er að nefna stuttlega meðferð sem margir endurmyndurnarlæknar (regenerative doctors) nota einnig og kallast neuroprolo eða Lyftogt method.

Þá er veikri dextrósalausn sprautað rétt undir húðina til að „losa“ um taugar sem liggja á því svæði (kallað hydrodissection). Ef vandinn er á mjaðmasvæði, eins og í mínu tilviki, er áherslan á „cluneal nervers“. Kenningin er að taugar geti „klemmst“ eða pirrast ef það er t.d. mikil vöðvaspenna og með þessu er losað um taugarnar sem verða þá til friðs – tímabundið í það minnsta. Ég fékk svona meðferð samhliða prolo og fannst hún hjálpa því vægur en nagandi verkur sem ég hafði verið með í kringum setbeinið hægra megin hvarf. Ég komst að því að taugarnar sem meðferðin beindist að kallast cluneal nerves og í þessu tilfelli voru það inferiour cluneal nerves sem voru til vandræða. Sjá meira hér um cluneal nerves sem virðist vera eitt af því sem flýgur undir radarinn.

Leitin að lausninni

Ég fann grúppu á Facebook sem innihélt hóp fólks, aðallega konur, með spjaldliðs/mjaðmagrindarvanda sem ýmist hafa farið í prolo/PRP eða eru að íhuga það og vilja kynna sér málin. Sú sem stofnaði hópinn er frá Kanada og var sjálf að þreifa fyrir sér með prolo meðferðir og vildi heyra frá öðrum í sömu pælingum. Í dag eru nokkur þúsund manns í hópnum og þegar ég var að byrja á þessu var ómetanlegt að geta lesið reynslusögur og ekki síður að geta borið saman bækur. 

Mér fannst ekki freistandi að fara í einhverjar tilraunameðferðir en staðan var of slæm til að gera ekkert. Það fyrsta sem ég gerði í þessum málum var að fara til osteaopata í London sem sprautaði prolozone í liðböndin. Ég er ekki frá því að það hafi hjálpað eitthvað pínu en eftir því sem ég las meira um þessi mál fannst mér eins og prolozone væri minnst líklegast til árangurs. Í Bandaríkjunum virðist vera hægt að finna góða endurmyndunarlækna í hverju ríki en virðist vera flóknara í Evrópu.

Í grúppunni heyrði ég af ítölskum lækni sem ég ákvað að fara til. Ég hafði þá þegar eytt stórfé í tvær tilraunakenndar PRP meðferðir hér heima sem skiluðu engum árangri. Í ljós kom að sá ítalski kunni vel til verka. Hann lærði þessa tækni hjá lækni í Bandaríkjunum, kennir hana á Ítalíu og hefur stundað hana í áratug í það minnsta. Hann notar ekki ómtæki, sem margir telja mikilvægt, en meðferðirnar eru „comprehensive“ og það var engu líkara en maðurinn hefði röngtenaugu. Hann sprautar bara á „örugg“ svæði, þ.e þar sem ekki er hætta á að hitta á taug (svo sem settaugina) og alls ekki í háls. Ég fann strax mun eftir fyrstu meðferð en svo mun meiri eftir að áherslan fór á „deep interosseous ligaments“ og við færðum okkur úr prolo yfir í PRP. Það sem flækir málið við að leita þessara meðferða erlendis er að það verða að líða nokkrar vikur, jafnvel mánuðir, á milli meðferða. Liðbönd eru lengi að gróa (lítið blóðflæði í þeim) svo það þjónar engum tilgangi að flýta ferlinu. Ég vissi það líka eftir veru mína í grúppunni að það þarf mikla þolinmæði. Batinn er alls ekki línulegur og fáránlega hægur ef vandamálið hefur fengið að gerjast of lengi. Og í þessu sem og öðru er auðvitað ekkert á vísan að róa. Ef þetta væri einhver töframeðferð væri verið að veita þessar meðferðir á hverju götuhorni. 

Ég ákvað að taka eitt ár og fara reglulega (á 2-3 mánaða fresti) og meta stöðuna eftir það. Árangur ætti að nást á þeim tíma. Ég náði fjórum meðferðum hjá ítalska lækninum á átta mánuðum.  

Í gegnum Facebook grúppuna kynntist ég pólskri stelpu sem býr í Englandi. Hún hafði farið aðeins á milli lækna með mismunandi árangri og var að íhuga að hitta ítalska lækninn og hafði því samband við mig. Hún fann síðar lækni í London sem hún var ánægð með og lét mig vita af því. Í kjölfarið ákvað ég að hitta þennan lækni. Sá notar ómtæki (og kennir þá tækni) um leið og hann sprautar og getur auk þess séð með tækinu, að einhverju leyti í það minnsta, hvað er í gangi. Fram að þessu höfðum við ekki fundið endurmyndunarlækni í Evrópu sem notar sónar með þessum hætti.

Hann sá vandræði við hægri trochanter; einhverja beinnibbu  (bone spur) við vöðvafestu á gluteus medius sem gefur til kynna að þessi vöðvi hafi verið í yfirvinnu um langt skeið. Hann taldi það geta verið vegna óstöðugleika í mjaðmalið. Þetta voru ekki góðar fréttir en samt að sumu leyti pínu léttir því þetta staðfestir að ég er þá ekki bara að ímynda mér þennan óstöðugleika í hægra fæti/mjöðm. En hvað er til ráða? Hvers vegna getur gluteus medius ekki bara verið glaður og sáttur? Ég hef engin svör við því.

Ég hitti pólsku vinkonu mína í London eftir meðferðina og hún hafði þá farið til Bandaríkjanna nokkrum vikum fyrr í meðferð hjá mjög færum lækni. Hún ákvað að taka skrefið til fulls en við höfðum lengi öfundað bandarísku konurnar í grúppunni sem höfðu aðgang að læknum sem nota ómtæki og nota gott PRP. Vinkonan hafði náð góðum árangri með mjaðmagrind en var að glíma við vandamál í hálsi og fann það út að einn færasti læknirinn væri í Denver. Hún fór í PRP með stofnfrumum úr beinmerg) og með ómtækinu og færni geta læknarnir svo að segja sprautað hvar sem er. Fór svo að ég ákvað að fara í mína „hinstu för“, og fann tíma sem hentaði mér að taka frí. Við fórum til Denver og ég fékk PRP meðferð í hægri mjöðm (í mjaðmaliðböndin), spjaldliðsliðbönd, mjóbak (ef taugarnar frá L5 væru að erta eitthvað). Mælt hafði verið með lækni sem reyndist vera mjög fær og almennilegur. Hann hitti mig fyrst í Zoom viðtali eftir að ég hafði sent út alls kyns gögn. Þá hitti ég hann að morgni meðferðardags, hann tók viðtal, gerði einhver test og skoðaði svæðið með ómtæki. Hann sá m.a. rifu á vöðvafestu gluteus medius og maximus, og lagði fram plan um það hvar hann myndi sprauta. Því næst var tekinn slatti af blóði og ég fór heim. Kom svo aftur seinna um daginn, var hálfsvæfð með dreni, eða hvað það heitir, þannig að ég var vakandi en fann samt ekki mikið fyrir neinu. Þetta var töluvert öðruvísi en ég hafði vanist, mjög faglegt en að sama skapi dýrt. Ég get þó ekki sagt að ég hafi fundið meiri mun eftir þessa meðferð en hjá ítalska lækninum.

Miðað við allt sem ég hef lesið um endurmyndunarmeðferðir (finn ekki annað heiti yfir þetta á íslensku) og það sem ég hef reynt á eigin skinni er mín upplifun þessi:

Læknar, sem nota ekki sónar, nota gjarnan HH tæknina sem minnst var á hér að ofan. Þá er sprautað á ákveðna staði og þess utan þreifar læknir til að finna hvar hægt er að framkalla verk. Þegar PRP er annars vegar er svo lítið af efninu að það er glatað að eyða því í vitleysu. Að finna lækni sem er bæði fær í að skoða með sónar/röngten og að sprauta er hins vegar þrautin þyngri.

Ef verið er að nota prolo er hægt að sprauta mikið, efnið er ódýrt, en þá er verið að búa til bólgur á stöðum sem þurfa kannski enga lækningu. Slíkt getur jafnvel sett óþarfa álag á taugakerfið.

Sumir læknar sem nota PRP sprauta bara á nokkra staði en ég myndi aldrei standa í þessu og borga fyrir meðferð nema hún sé það sem er kallað í hópnum mínum „comprehensive“, sem mætti kannski þýða sem yfirgripsmikil. Það eru dæmi um að læknar sprauti bara inn í liði en ef liður er í vanda eru ólíklegt að liðböndin séu það ekki líka.

Það er alltaf best að þurfa ekki að fara í neinar meðferðir með svona inngripi. Ef að það er hins vegar gert er mikilvægt að vera meðvituð um að það eru margir læknar sem veita þessa þjónustu án þess að hafa nokkra þjálfun á þessu sviði. Það skiptir því öllu máli að finna lækni sem veit hvað hann er að gera, hefur lært tæknina og hefur reynslu. Læknar sem auglýsa sig vel og mikið eru ekki endilega þeir færustu. Það er því mikilvægt að rannsaka málið vel og heyra reynslu annarra.

Ég hef ekki hugmynd um hvort að það sé stórkostlegur gæðamunur á PRP sem er þeytt á staðnum og tekur 20 mínútur eða PRP sem er unnið á rannsóknarstofu með Guð má vita hvaða aðferðum.

Góðir fyrirlestrar

Ég finn svo að segja ekkert um prolo og PRP á íslensku en áhugasamir geta fundið endalaust efni á netinu á ensku. Í þessu sem og öðru er fólk duglegt að selja „sína“ lausn og því mikilvægt að gagnrýnin hugsun sé alltaf með í för. Þá er auðvitað alls ekki á vísan að róa, jafnvel þótt fær læknir finnist. Það er ástæða fyrir því að fólk fer í krossbandsaðgerðir, stundum verður liðböndum bara ekki bjargað. Það eru hins vegar engar liðbandsaðgerðir gerðar á spjaldlið og eina leiðin, ef allt er komið í rugl, er að festa liðinn með skurðaðgerð. Það er þó þess virði að freista þess með öllum ráðum að komast hjá slíkri aðgerð. Það eru margar konur í Facebook-hópnum sem hafa náð ótrúlegum bata með prolo/PRP og skynsamlegri sjúkraþjálfun.

Fyrir áhugasama mæli ég með þessum tveimur fyrirlestrum:

Dr. Fullerton er læknir í Texas sem færði sig yfir í endurmyndunarlækningar. Margt mjög áhugavert sem kemur þarna fram. 

Og svo er þessi hér með Dr. Saunders:

Ég var löngu búin að fá spjaldliðsgreiningu og búin að fara í nokkrar prolo/prp meðferðir þegar ég með hálfum hug ákvað að hlusta á þennan fyrirlestur sem einhver hafði mælt með. Í stuttu máli er þetta besti fyrirlestur sem ég hef séð um spjaldliðsvanvirkni. Mér fannst á stundum eins og það væri verið að lýsa mér, einkennin pössuðu svo vel. 

Iliolumbar liðband gæti verið rót verkja

Ein skýring á mjóbaksverk gæti verið tognun á Iliolumbar liðbandi en það má sjá á myndinni hér að neðan. Þessi liðbönd liggja frá hryggjalið L4 og niður á mjaðmakambinn (iliac crest). Þarna má einnig sjá mikilvægt liðband sem heitir sacrotuberous ligament og er mjög mikilvægt fyrir stöðugleika spjaldliðanna.

Stundum er deyfiefni sprautað í iliolumbar liðband (eða önnur liðbönd) til að þrengja leitina. Ef verkur hverfur er það mikilvæg vísbending. Hér er áhugaverð rannsókn þar sem iliolumbar liðbönd eru skoðuð með ómtæki og síðan er PRP notað ef ómskoðun bendir til þess að þessi liðbönd geti verið rót vandans.

Verri eftir prolotherapy

Hér er mjög áhugaverð vefsíða þar sem ung kona segir frá sinni þrautagöngu eftir höfuðhögg og hálsmeiðsli. Hún náði bata seint og um síðir en á einhverjum tímapunkti fór hún í prolo-meðferð sem hafði þær afleiðingar að henni versnaði til muna. Það virðist vera erfitt að sprauta í háls, eða öllu heldur krefst það mikillar færni. Þá sýnir þetta líka að engin meðferð er án áhættu.

Hér er grein um PRP og stofnfrumumeðferðir. Það segir réttilega að rannsóknir á þessu sviði skortir en hins vegar séu hefðbundnar meðferðir við meiðslum á vöðvafestum og liðböndum ekki alltaf árangursríkar. 


by

Start a Blog at WordPress.com.