Þar sem mjög erfitt getur verið að greina stoðkerfisverki, að ekki sé talað um bak-mjaðmagrindar, – eða mjaðmaliðsvanda, má segja að hver meðferð sé í raun lítil rannsókn. Sjúkraþjálfari setur fram kenningu og lætur svo reyna á hana með viðurkenndum aðferðum. Ef árangur næst ekki hlýtur að þurfa að endurmeta bæði greininguna og meðferðina. Þannig vinna vonandi margir en það getur verið margt sem kemur í veg fyrir að sjúkraþjálfari/læknir endurskoði greiningu (og/eða meðferð) eða vísi fólki áfram í kerfinu.
Þegar erfiðlega gengur að fá greiningu eða ef meðferð gengur illa, getur margt komið til. Þekkingu getur verið ábótavant og tilfelli geta vissulega verið mjög flókin. Reyndar virðast stoðkerfisverkir sem snúa að baki/mjaðmagrind svo flóknir að helstu fræðimönnum ber ekki saman. Meðferðarmöguleikarnir virðast líka óendanlega fjölbreyttir sem bendir til þess engin „bestun“ hafi átt sér stað. Ofan á þetta bætist að þekking hverrar manneskju er óhjákvæmilega takmörkuð, greiningin sjálf fær ekki nóg vægi og lítið er um teymisvinnu þar sem fólk getur borið saman bækur. Það er því kannski ekki að undra að bakverkir séu eitt stærsta heilbrigðisvandamálið í hinum vestræna heimi.
Það er ákveðin heillbrigðisgildra sem vert er að gefa gaum og það er „bias“ af ýmsum gerðum. Ég sé ekki hvaða íslenska orð hefur fest sig í sessi sem góð þýðing en nokkur hugtök eru í gangi, svo sem hugsanavilla, rökvilla, vitsmunavilla og skynsemisbrestur. Við erum öll óhjákvæmilega haldin einhverjum rökvillum og jafnvel fordómum og þurfum því að vera meðvituð um þennan mannlega eiginleika. Það á ekki síst við í kerfi þar sem heilsa og líf fólks er undir.
Mér fannst of algengt að sjúkraþjálfarar festust í greiningum. Ef meðferð gekk illa var ekki fyrsta ályktun að að greiningin væri röng eða meðferðin ekki heppileg, heldur væri ég flókið tilfelli. Það er yfirmáta mikilvægt að sjúkraþjálfari/læknir hafi kjark til að staldra við, endurskoða greiningu, byrja upp á nýtt eða skipta um skoðun og það sér í lagi þegar bakverkir eru annars vegar. Læknir eða sjúkraþjálfari sem myndi alltaf detta niður á rétta greiningu og meðferð í fyrstu tilraun væri með margra ára biðlista.
Tegundir af rökvillum
Til eru alls kyns tegundir af rökvillum. Ein sú þekktasta er sönnunartilhneiging/staðfestingarskekkja (conformation bias) sem felst í því að við vinsum úr þær upplýsingar sem staðfesta okkar skoðun og horfum gagngert fram hjá upplýsingum sem benda til þess að við höfum rangt fyrir okkur. Í heilbrigðiskerfinu myndi þetta t.d. lýsa sér þannig að jafnvel þótt nýjar upplýsingar komi fram þá stendur fyrri greining óbreytt.
Anchoring bias er af sama meiði en það er sú tilhneiging að leggja of mikla vigt á fyrstu upplýsingar sem liggja fyrir þrátt fyrir að gögn bendi til annars. Hér er grein eftir lækni sem féll í þessa gildru.
Ég var sjálf fórnarlamb „Sunk cost fallacy“ þ.e. að þegar búið er að eyða svo miklum tíma og orku í ákveðið verkefni er mjög erfitt að stoppa og viðurkenna að allt hafi verið til einskis eða staðan sé hreinlega verri en áður. Þegar ég var í brjósklosmeðferðinni örlagaríku trúði ég því alltaf að árangurinn væri rétt handan við hornið. Sjúkraþjálfarinn virtist aldrei efast og ég taldi mig vera að axla ábyrgð á eigin heilsu með því að gera það sem fyrir mig var lagt.
Sjá einnig áhugaverða grein um vitsmunavillur í heilbrigðisþjónustu hér og hér.
Þá má ekki gleyma því sem kallast „gender bias“ og vísar til þess að konur verði fyrir barðinu á karllægum hugsunarhætti í kerfinu. Þessi tegund rökvillu kallar á sérstakan pistil sem ég mun skrifa síðar.