Verkjafræði – Pain science

Þetta er svolítið erfitt umfjöllunarefni sem ég vil bara rétt koma inn á því það gæti komið einhverjum á rétta slóð.

Ég fékk þær upplýsingar einhverju sinni að ef verkur væri búinn að vera til staðar í einhvern tíma væri líklegt að það væri ekkert stoðkerfistengt í gangi heldur hefði verkurinn náð að „grafa um sig“ í heilanum. Áverki/meðsli á mjúkvef myndi lagast á nokkrum vikum og verkur að þeim tíma liðnum væri ekki „raunverulegur“. Þarna gleymist reyndar að þessar nokkrar vikur eiga væntanlega við bestu mögulegu aðstæður, þ.e. að áverki hafi verið rétt greindur og ráðleggingarnar eftir því.

Þar sem slæmir verkir hafa ekki þjáð mig (svo framarlega sem ég sef ekki á hlið, sit ekki of lengi o.s.frv.) hef ég ekki sökkt mér mjög djúpt í þessi fræði. Ég hef þó lesið nokkrar bækur og þekki konur sem hafa farið í allan þennan pakka.

Rauðglóandi taugabrautir

Það má finna alls konar útgáfur af þessum kenningum, sem ýmist, eða bæði, ganga út á að verkurinn sé ekki vegna líkamlegs kvilla heldur séu taugabrautir og einhver svæði í heilanum á yfirsnúningi og svo að stress og álag brjótist út í líkamlegum verkjum.

Í einni bók sem ég las var verkjum lýst þannig að taugabrautirnar verði „stærri“ eftir því sem verkurinn varir lengur og því meiri verður verkurinn sem aftur „stækkar“ taugabrautina. Þetta veldur stressi/kvíða/tilfinningalegu álagi sem svo aftur gerir illt verra. Þar sem verkurinn er til staðar er erfitt að hugsa ekki um hann en markmiðið væri þá að reyna að leiða hugann frá verknum, rjúfa vítahringinn jafnvel þótt það sé bara í nokkrar sekúndur í senn. Ein æfing sem var mælt með er að finna einhvern stað á líkamanum sem er algerlega verkjalaus, segjum þumalfingur á vinstri hendi. Síðan er allur fókus settur á þumalinn og þannig í átt frá verknum. Meðverð við verkjum ætti því líka að beinast að heilanum ekki síður en stoðkerfinu. Það gæti hjálpað örlítið, en gæti líka verið stór þáttur í leið að bata.

Hér má sjá myndband eftir Moseley mikinn verkjasérfræðing en þeir eru allmargir þarna úti.

Sjúklinga-hópar/grúppur, eða hvað við köllum þær geta verið gríðarlega mikilvægar. Ég hefði misst vitið ef ég hefði ekki fundið konur í sama vanda en það skiptir máli að vera í hópum þar sem verið er að veita góðar upplýsingar. Það kom tímabil þar sem ég virkilega þurfti að lesa mér til og fá upplýsingar en á einhverjum tímapunkti er líka komið nóg. Það er auðvelt að festast í vandanum, sér í lagi þegar það er litla hjálp að fá frá kerfinu sem við treystum á. Þess vegna er alltaf gott að meta hvenær hópur er að hjálpa og hvenær hann jafnvel eykur á kvíða og vonleysi. Í dag hef ég farið úr öllum hópum og þótt „spjaldliðs-prolo-PRP“ grúppan hafi verið lífsbjörg þá er líka mikilvægt að ílengjast ekki að óþörfu.

Bældar tilfinningar

Sumar kenningar ganga út á að verkur sé einhvers konar viðbragð líkamans ef fólk tekst ekki á við erfiðar tilfinningar. Stress og tilfinningalegt ójafnvægi geti þannig brotist út í verk sem eigi sér engar líkamlegar, eða stoðkerfislegar skýringar. Þessar pælingar virðast mér eignaðar lækninum John Sarno sem gaf út bókina Healing back pain árið 1991.

Samkvæmt þessu væri fyrsta ráðið að vera meðvituð um þennan möguleika og ekki hræðast verkinn. Hann sé ekki staðfesting á því að eitthvað alvarlegt sé í gangi (en hér ætti auðvitað að vera búið að útiloka með greiningarferli að svo sé). Fólk sem aðhyllist þessi fræði myndi til dæmis alls ekki fara að útskýra fyrir skjólstæðingi hversu mikil slit sjáist á myndgreiningu eða tala líkamlegt ástand niður. Þá er held ég viðurkennt í dag að sálræn áföll, hvenær sem er á lífsleiðinni, geta haft áhrif á líkamlega heilsu. Sumir telja jafnvel að meira og minna alla sjúkdóma megi rekja til áfalla og streitu. Bækur eftir Gabor Maté og Bessel van der Kolk hafa verið þýddar á íslensku og eru áhugaverð lesning.

Í þessu sem og svo mörgu öðru er þó rétt að vera vakandi fyrir því að fólki hættir til að detta í sortir og pendúllinn á það til að sveiflast öfganna á milli. Ef heilbrigðisstarfsmaður er mjög upptekinn af þessum fræðum er allt eins líklegt að hann setji alla í þennan flokk sem ekki eru með augljósa greiningu. Ef vandamál er raunverulega stoðkerfistengt (að ekki sé talað um eitthvað enn verra) er beinlínis kvíðavaldandi að vera sagt að það sé ekkert að. Í ljósi þess hversu lítil áhersla er á vandað greiningarferli er þessi hætta töluverð.

Leitin að kvíðanum

Ég á eina vinkona sem þjáðist af alls kyns verkjum. Um tíma var hann í hálsi, svo hafði hún tognað á ökkla, verkurinn færðist á mjaðmasvæðið og stundum í rifbeinin. Suma daga var allt í góðu en aðra daga gat hún ekki gengið og grét af verkjum. Engin líkamleg einkenni fundust þrátt fyrir myndgreiningar og alls kyns test. Á endanum komst hún að því að öll einkennin hafi mátt rekja til kvíða. Hún vann í þeim málum og náði góðum bata.

Þar sem ég fylgdist með henni langaði mig augljóslega að ná sama árangri. Vinkona mín var líka eðlilega upptekin af því að hafa leyst ráðgátuna og taldi víst að allir sem glímdu við stoðkerfisverki væru, líkt og hún, að glíma við kvíða. Ég las einhverja bók um kvíða sem hún mælti með en ég fann mig ekki í lýsingunum. Ég hef sem betur fer sofið nokkuð vel í gegnum þetta allt og það hef ég alltaf notað sem mælikvarða á streitu. En hvað veit ég svo sem. Ég gerði því einhverjar æfingar á Curable sem hjálpuðu ekkert og leitin að kvíðanum var farin að gera mig kvíðna. Ég fór meira að segja til sálfræðings til að athuga hvort ég gæti verið með falinn kvíða sem væri rótin að mínum vanda.

Þá tók ég líka nokkur tímabil þar sem ég var sannfærð um að það væri í raun ekkert að mér því þá hefði einhver af þessum ótal aðilum sem ég hitti verið búnir að leysa gátuna. Þessar tilraunir gengu þó ekki. Ég lagði þessar pain science kenningar til hliðar, að öðru leyti en því að það er hollt að vera vakandi fyrir stressi og allt sem róar taugakerfið er gott, hvort sem verkirnir eru raunverulega stoðkerfistengdir eða ekki. Hugleiðsla, jóga nidra, öndunaræfingar og þess háttar geta klárlega hjálpað.

Þessi fræði eru í miklum vexti og ég held að í öllum alvöru meðferðum sé tekið tillit til þess að langvarandi verkjaástand þarf öðruvísi nálgun en hefðbundinn stoðkerfisvandi. Fólk getur náð ótrúlegum árangri með þessari nálgun og þar sem stundum er mjög erfitt að leysa stoðkerfis- og verkjaráðgátur er þetta eitthvað sem er vert að skoða.


by

Start a Blog at WordPress.com.