Spjaldliðsvanvirkni

Spjaldliðirnir virðast nokkura konar svarthol í fræðunum sem er sérstaklega óheppilegt ef stoðkerfisvandamál má rekja til þeirra.

Það sem kallast sacroiliac joint dysfunction (SIJD) hefur að því ég best veit ekkert heiti á íslensku. Hugtakið nær yfir hvers konar verki og vanvirkni (eitthvað virkar ekki sem skyldi) í spjaldliðum/spjaldlið sem rekja má til spjaldliðanna sjálfra eða vefja í kring, sérstaklega liðbanda en einnig vöðva. Stundum er líka talað um pelvic girdle pain, skammstafað PGP (verkir í mjaðmagrind). Ef verkirnir eru beintengdir meðgöngu er talað um pregnancy related pelvic girdle pain eða grindargliðnun/grindarlos. Ef verkir halda áfram eftir meðgöngu er talað um post partum pelvic girdle pain. Líklega er nærtækast að tala um spjaldliðsvanvirkni sem þýðingu á SIJD.

Mjaðmagrindin samanstendur af þremur beinum og þremur liðum. Spjaldbeinið (sacrum) er neðst á hryggsúlunni, kyrfilega staðsett á milli mjaðmabeina (ilia). Spjaldliðirnir (sacroiliac joints eða SI joints) halda þessum beinum saman að aftan, eða öllu heldur hinn mjög svo sterki liðbandastrúktúr. Að framan er svo þriðji liðurinn fyrir miðju sem kallast lífbein (pupis symphasis).

Um það hefur verið deilt hvort spjaldliðir geti hreyfst. Lengi var talið að svo væri ekki nema þegar konur eru óléttar. Rannsóknir hafa staðfest að ef allt er eðlilegt er örlítil hreyfing í spjaldliðum, meiri hjá konun en körlum, en þó virðist sú skoðun enn útbreidd að spjaldliðir geti ekki verið orsök verkja eða stoðkerfisvanda.

Eftir að athygli mín beindist að spjaldliðunum, bárust böndin fljótt að hollenska fræðimanninum Andry Vleeming. Vart er hægt að lesa fræðigrein um spjaldliðsvanvirkni öðruvísi en að í hann sé vitnað eða hann sé höfundur, eða meðhöfundur greinar. Hann útskýrir í þessu viðtali að hann hafi farið að skoða spjaldliði þar sem hann velti fyrir sér hvernig krafturinn sem bylgjast upp og niður líkamann dreifist við álag, svo sem við göngu, því neðsti hryggjarliðurinn L5 gæti ekki einn og sér tekið „höggið“. Í raun má segja að spjaldliðirnir séu eins konar demparar. Þeir verða að gefa aðeins eftir en ekki of mikið og ekki of lítið. Hlutverk spjaldliðanna er þannig fyrst og fremst að hleypa krafti „transmit force“ í gegnum neðri og efri part líkamans.

Spjaldliðsvanvirkni (SIJD) getur orsakast af ýmum þáttum svo sem bólgum eða verki í sjálfum spjaldliðunum, einum eða báðum, t.d vegna bólgusjúkdóms (giktar) áverka og slyss. Ef það er bólga í lið er talað um sacroiliitis. Spjaldliðsvanvirkni nær líka yfir það þegar liðbönd, sem eiga að halda liðunum í skefjum, hafa misst  teygjanleika, sem getur gerst við meðgöngu og jafnvel við fæðingu á stóru barni, en líka vegna slyss eða ofálags á liðina, til dæmis vegna iðkunar á vissum íþróttagreinum. Þá er spenging í mjóbaki, L5-S1 sér í lagi, talinn áhættuþáttur því þá verður álagið meira á spjaldliðina, þ.e. álagið færist þangað.

Vangreindur vandi

Það er kannski ekki skrítið að mér hafi gengið illa að fá svör við spjaldliðsspurningum því almennt er talið að spjaldliðsvandi sé vangreindur. Rannsóknir sýna að 15-30% af bakverkjum megi rekja til spjaldliða og sumir fræðimenn halda því fram að hlutfallið sé mun hærra hjá konum. Spjaldliðir eru örugglega með flóknustu liðum líkamans og stundum er sagt að þeir séu síðustu liðirnir til að vera rannsakaðir almennilega. Konur eru í meiri hættu að kljást við spjaldliðsvesen en karlar sem skýrir eflaust þá vanþekkingu sem er í gangi. Það er vel þekkt að konum er almennt hættara við liðbandaáverkum eins og t.d. krossbandssliti og eru þá hormón meðal annars grunuð um græsku.

Liðböndin mikilvæg

Það ætti því ekki að koma á óvart að konur glími frekar við verki frá spjaldhrygg þar sem liðbönd spila stórt hlutverk í að halda stöðugleika. Og ef spjaldliðirnir eru svarthol í fræðinum þá eru liðböndin í kringum þá eitthvað annað og enn verra.

Mér varð ekkert ágengt þegar ég bar liðbandskenninguna undir lækna og sjúkraþjálfara og var ýmist sagt að liðböndin væru svo sterk að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur, að ég þyrfti að lenda í slysi til að skaða þau eða ég fékk hreinlega engin svör. Þar sem ég hafði ekki þekkingu til að lesa mér til gagns í þessum efnum varð ég lengi vel að láta mér þessi svör duga.

Spjaldliðsliðböndin eru vissulega sterk enda verða þau að vera það til að halda mjaðmagrindinni saman, en það er ekki rétt að ekkert fái þeim haggað. Þessi liðbönd geta tognað og trosnað eins og öll önnur liðbönd í líkamanum.

Ég hef tvisvar sinnum fengið mjög snarpan staðbundinn verk á nákvæmlega sama stað við hægri spjaldlið. Undantekningalaust versnaði mér mikið í framhaldinu, jafnvel svo að ég varð rúmliggjandi. Ég fattaði ekki fyrr en löngu síðar að þetta var tognun og besta ráðið hefði verið að leyfa þessu að jafna sig. En þegar mjóbakið er annars vegar er eins og það megi alls ekki. Þá skulu gerðar æfingar og teygjur og jafnvel einhver hnoð og tog sem er síðan eiginlega ávísun á að ástandið verði krónískt. Líkaminn fær aldrei tíma til að jafna sig.

Panjabi er þekktur fræðimaður sem hefur m.a. sett fram þá kenningu að liðbandameiðsli geti verið orsök krónískra bakverkja. Hann talar líka um að liðbönd/liðir og vöðvar „tali saman“. Þegar liðband laskast breytast taugaboðin og jafnvel eftir að liðböndin lagast geti þessi vanvirkni verið til staðar. Hér er rannsóknargrein eftir Panjabi

Hér er áhugaverð grein um tognun á ökkla og hvernig meðsli á liðböndum geta dregið dilk á eftir sér.

Hér er grein um liðböndin og góðar myndir af öllu svæðinu

Einkenni spjaldliðsvanvirkni

Þau einkenni sem oftast er lýst ef verk má rekja til spjaldliða (við einfalt gúggl en líka í fræðigreinum) eru meðal annars:

 • Verkur við að ganga upp stiga
 • Verkur við að velta sér frá einni hlið yfir á aðra
 • Erfitt/vont að standa lengi og að sitja
 • Best að liggja á bakinu
 • Erfitt að ganga, eða verkur við að ganga mikið
 • Líkt og fótur gefi eftir

Þetta eru einkenni sem eru nær alltaf tínd til en þau ná mjög skammt og eru að ég held ekki einkennandi fyrir flestar konur sem ég þekki eða í samræmi við lýsingar sem ég hef séð í spjaldliðsgrúppum. Ég veit ekki hvort það er bara vegna þess að hver lepur þau upp eftir öðrum eða hvort þetta séu einkenni sem eru meira dæmigerð fyrir karla.

Ef ég tek saman þau einkenni sem finna má hingað og þangað, þau sem ég upplifði og þau sem ég hef heyrt aðra lýsa þá er listinn mun lengri. Margt þarna getur að sjálfsögðu átt við einhvern annan vanda og mín einkenni voru minni og ógreinilegri í upphafi vandans.

 • Erfitt að ganga með einhverja þyngd.
 • Mikil vöðvaspenna/stífni í rassvöðvum og þá sér í lagi þeim sem kallast deep hip rotators) þar sem vöðvarnir eru að bregðast við óstöðugleika í lið.
 • Getur verið vont að sofa á hlið.
 • Erfitt/vont að standa lengi.
 • Kraftleysi í neðri hluta líkamans, eins og það sé erfitt að hreyfa fæturna, þeir séu þungir.
 • Erfitt að vinna fram fyrir sig svo sem pússa rúðu, vaska upp.
 • Hreyfingar sem setja allan þunga á annan fót eru erfiðar, til dæmis að fara í og úr buxum.
 • Erfitt að ganga upp halla/brekku.
 • Þreyta, stífni, minna úthald eftir hreyfingu/æfingar sem setur álag á spjaldliði en þær eru oftast þannig að mikið álag er á annan fót í einu.
 • Mjög erfitt að taka stór skref eða sveifla fæti fram og til baka eða til hliðar.
 • Hreyfingar verða hægar, svo sem ganga.
 • Teygjur og tog auka verki/vanda.
 • Erfitt að ganga með teygju um hné (eftir því sem teygjan er neðar því meira álag er á mjaðmagrindina).
 • Æfingar/hreyfingar þar sem fætur eru langt í sundur, hvort sem er í átt að splitt eða spígat auka verki.
 • Æfingar/hreyfing sem setur mikið vogarafl á hendur og fætur. Í viðtalinu sem ég hlekkjaði á fyrr í greininni segir Vleeming að á bakklínikinni í Hollandi komi oft fólk sem hafi farið illa út úr æfingameðferðum. Algengustu mistökin séu þau að alltof mikil áhersla er á vogarafl á sama tíma og ekki er nægur styrkur í miðjunni.
 • Að ganga í hælaskóm.
 • Ganga mikið, sér í lagi á malbiki (betra að ganga á mýkra undirlagi)
 • Fettur, t.d. legið er á maga og efri líkama lyft upp með handleggjum (cobra) en líka að standa í báða fætur og fetta bakið aftur. Við fettu mælist mest hreyfing á spjaldlið skv. rannsóknum.
 • Í einni grein sá ég lækni tala um að hann fylgdist með hvernig fólk sæti. Eitt einkenni SIJD er nefnilega að fólk situr skakkt þannig að það hlífir setbeini á verri hlið.
 • Að setjast niður á hæla (squat) og annað sem teygir mikið á spjaldhrygg.

Það getur verið krefjandi að mismungreina þar sem spjaldliðir, neðstu brjóskþófar og mjaðmaliðir eru allir á svo að segja sama svæði og einkennin lík. Verkur frá baki gæti komið frá spjaldlið og öfugt. Þá er mikið af liðböndum á þessu svæði og ógrynni af vöðvum því eitthvað á milli 30-40 vöðvar festast á mjaðmagrindina úr öllum áttum. Rót vandans gæti líka verið á öðrum stað en verkurinn. Ekkert er einfalt og að sumu leyti skiljanlegt að meðferðaraðilum fallist hendur.

Áhættuþættir

Þættir sem geta aukið hættu á spjaldliðsvanvirkni eru og ég hef rekist á, eru:

 • Annar fótur styttri
 • Grindargliðnun á meðgöngu, erfið fæðing, að fæða stórt barn
 • Ákveðnar íþróttir/hreyfing þar sem mikið álag er á spjaldliði
 • Slys, fall svo sem beint á setbein, bílslys þar sem fóturinn er fastur á bremsunni, fall af hestbaki þar sem fótur festist í ístað
 • Of mikill liðleiki (t.d. EDS sjá neðar)

Greining á SIJD

Það hefur enginn sagt að auðvelt að greina stoðkerfisvanda sem á rætur að rekja til spjaldliða. Þar sem meðferð við spjaldliðsvanvirkni getur verið allt önnur en t.d. meðferð við brjósklosi eða einhverjum óskilgreindum bakverk er mikilvægt að greiningin sé vönduð.

Það eru til nokkur test/próf sem eru notuð til að framkalla verk við spjaldlið, þ.e. til að tékka á því hvort verkurinn komi frá spjaldhrygg en ekki mjaðmalið eða hryggsúlu (hryggþófum eða fasettuliðum). Þá er sterum sprautað í spjaldlið (og deyfingu) til að sjá hvort að það hafi áhrif á verk. Verkir og vanvirkni getur hins vegar líka komið frá liðböndunum í kring og þá hefur sprauta í liðinn sjálfan engin áhrif.

Þegar mig var farið að gruna spjaldliðina var það einna helst listinn yfir það sem ætti að forðast sem kom mér að bragðið. Alls konar hreyfing sem er almennt talin góð fyrir bak, eins og ganga, gerði mig verri. Allar æfingar sem áttu að vera frábærar fyrir brjósklos gerðu mig verri, fettur gerðu mig verri, að sitja lengi eða standa lengi gerði mig verri. Þegar ég fann svo þessa upplýsingar fannst mér ég komin á slóðina. Allt í einu meikaði sens af hverju togið fór alveg með mig og þegar ég fékk í fyrsta skipti snarpan verk við hægri spjaldlið var ég að snúa mér nákvæmlega eins og herra Serola sjálfur sýnir á þessari mynd. Þá hafði ég, í einni meðferðinni, verið látin standa og halla mér aftur eins og þarna er sýnt. Þessi, að því er virðist sakleysislega hreyfing, gerði mig verri. Löngu síðar átti ég samtal við vinkonu sem hefur alltaf þurft að passa sig, eftir slæma grindagliðnun. Hún sagðist alls ekki þola að fetta bakið með þessum hætti.

Upplýsingar um rannsókir  

Hér áður fyrr var spjaldliðum mjög oft kennt um mjóbaksverki en það breyttist þegar í ljós kom að bakverkir geta verið vegna hryggþófa/diska í baki, þ.e. þegar þeir rifna. Efnið sem er inni í hryggþófa getur þrýst á taugar og valdið verk. Við þessa uppgötvun færðist fókusinn allur á hryggþófana og bakið. Margir fræðimenn eins og til dæmis Vleeming halda því þó fram að mjóbaksverki hjá konum megi oftar en ekki rekja til spjaldliða og mjaðmagrindar.

Hér er mjög áhugaverð og ítarleg grein eftir nokkra helstu fræðimenn á þessu sviði.

Jenie Saunder er sérfræðingur í spjaldliðum og á öðrum stað hef ég sett hlekk á þetta myndband en það er svo gott að ég set hann líka hér. Ef manneskjan væri ekki í Ástralíu væri ég búin að fara til hennar í sprautur. Hér er líka fræðigrein eftir hana.

Í þessum fyrirlestri vitnar Saunders m.a. í rannsóknir Murakami sem benda til þess að liðböndin geti verið orsök vandans en ekki liðirnir sjálfir. Deyfing/sterar í liðinn skilar því ekki alltaf árangri. Deyfing í liðböndin, sem minnkar verk tímabundið gæti hins vegar verið dýrmæt vísbending.

Hér er önnur grein eftir Saunders og kollega þar sem fjallað er um krónískt hamstringvandamál hjá íþróttafólki sem rekja megi til spjaldliðsvanvirkni, að mati rannsakenda. Greinin er í pdf ofarlega til vinstri. þá eru fleiri pælingar um hamstring og spjaldliði í pistlinum um teygjur og tog.

Diane Lee er sérfræðingur í spjaldliðum og hefur m.a. unnið með Andry Vleeming. Ég var ekki búin að garfa mikið þegar ég fór að finna efni eftir Lee og fannst hennar nálgun skynsamleg. Ég komst svo að því síðar að hún er mjög virt fræðikona og hefur m.a. komið til Íslands og haldið námskeið. Sjá hér.

Nafn Don Tigny dúkkar oft upp. Eftir því sem ég fæ skilið heldur hann því fram að í öllum tilfellum sé í raun sama vandamálið í gangi; of mikill framsnúningur á mjaðmabeini (ilium) og það sé hægt að laga með ákveðnum æfingum. Ef það væri nú bara svo gott.

Hér er mjög góð og ítarleg grein sem mér finnst að mörgu leyti skynsamleg. Ef þessi sjúkraþjálfari væri ekki í Ástralíu hefði ég leitað hann uppi. Hann bendir á að bak- og mjaðmagrindarverkir séu gjarnan sett saman í einn pott og æfing fyrir einn kvilla henti ekki endilega öðrum kvilla. „Pelvic girdle and low back pain have fallen under the diagnostic umbrella of non-specific low back pain (NSLBP). Consequently, a misconception that any exercise is good exercise was created.“ Farið er yfir ólíkar tegundir af mjaðmagrindar snúning eða skekkjum en það skal tekið fram að það virðist enginn einhugur um það þessi mál. Einnig er umfjöllun um Muscle Energy Technique æfingar sem virðast geta virkað vel á spjaldliðsfólk.

Hér er eina greinin sem ég hef fundið á íslensku sem útskýrir í stuttu máli spjaldliðsverki.

Jerry Hesch er sjúkraþjálfari sem hefur mikið stúderað spjaldliði og notar áhugaverð próf (spring test) til að meta hvort liðirnir í líkamanum virki sem skyldi. Hesch er með fjöldann allan af myndböndum, til dæmis þetta.

Christy Collins er með blogg um spjaldliðsvanvirkni og hún var ein af þeim fyrstu sem ég fann þegar mig var farið að gruna spjaldliðina og það hjálpaði að lesa bloggið hennar.  

Aðgerðir á spjaldlið – spenging

SI fusion er aðgerð þar sem mjaðmabein og spjaldbein eru fest saman og þar með er komið í veg fyrir nokkra hreyfingu í liðnum. Þessar aðgerðir eru frekar nýjar af nálinni þannig að það er ekki komin langtíma reynsla. Ég hef virkilega íhugað aðgerð en ef þær misheppnast er ekki aftur snúið. Ef þær heppnast, og of mikil hreyfing í spjaldlið er í raun rót vandans, geta þessar aðgerðir aftur á móti gefið fólki nýtt líf. Ég hef nokkrum sinnum verið komin á fremsta hlunn með að hitta skurðlækni sem er sérfræðingur á þessu sviði en hætti alltaf við. Ef allt um þrýtur er þessi möguleiki til staðar en þar sem ég þekki konur sem hafa náð ótrúlegum bata með prolo/PRP og góðri sjúkraþjálfun þá held ég enn í vonina að það muni duga mér.

Eins og ég útskýri á öðrum stað þá fór mig að gruna spjaldliðina 2018 en gekk mjög illa að fá hjálp. Þá fann ég nafn á sænskum lækni sem ég hafði samband við. Hér er myndband þar sem hann lýsir því meðal annars hvaða test hann notar (provocation test sem eiga að framkalla verkinn). Það vakti athygli mína að hann tekur  fram að sum test geti verið of agressíf fyrir þennan sjúklingahóp. Þarna fékk ég mikilvægt púsl í púsluspilið því þegar ég fór í sterasprautu í spjaldlið á sínum tíma varð ég verri á eftir. Ég skildi hvorki upp né niður og efaðist um tíma að spjaldliðnum væri um að kenna. Daginn áður en ég fór í sprautuna gerði læknirinn einhver „provocation test“, þar af eitt sem var mjög sárt. Kannski var sænski læknirinn með skýringuna, það eru til test sem auka á vandann tímabundið, rétt eins og farið væri að atast í tognuðum ökkla.

Hér er greinin sem ég rakst á í leit minni og mér fannst staðfesta hvað væri í gangi. Ég veit þó í dag að þessar aðgerðir eru meira en að segja það. og ég get ekki ímyndað mér að það sé ráðlagt að stunda hlaup af kappi þegar búið er að festa spjaldlið, eins og konan í þessari grein gerir. Álagið sem spjaldliðurinn tekur ekki lengur þarf jú að fara eitthvað.

Of mikill liðleiki vegna genagalla

Í spjaldliðsgrúppu sem ég er í eru konur sem hafa komist að því að þær eru með of mikinn teygjanleika í liðböndum þar sem kollagen framleiðslan er ekki alveg eins og hún á að vera. Þetta er kallað Ehlers Danlos og konur eru í meirihluta þeirra sem greinast.

Oft er þetta vangreint og einkennin geta verið verkir um allan líkama því vöðvarnir þurfa að vera í yfirvinnu þar sem liðböndin eru ekki eins sterk og æskilegt væri. Einkenni geta líka verið annarskonar og víða um líkamann þar sem kollagen er að finna í ýmsum vefjum svo sem í meltingarvegi.

Muldovne er sérfræðingur í Ehlers Danlos og hann bendir á mikilvægi spjaldliðanna:

„It can be overwhelming to a physical therapist when a new patient with multiple subluxations enters the clinic stating that everything hurts. Where do you begin treating a patient like this? Begin at the sacroiliac joint (SIJ). The SIJ is considered the keystone of the body because any dysfunction here can affect other joints up and down the kinetic chain.“

Hér er áhugaverð grein um konu, lækni, sem þjáist af Ehlers Danlos og endaði á að opna klínik til að hjálpa öðrum í sömu stöðu.

Jennie er sjúkraþjálfari sem er sjálf að glíma við EDS. Hún er með mörg fín myndbönd.


by

Start a Blog at WordPress.com.