Að meta árangur og fleira

Stundum getur þurft að horfa gagnýnum augum á kerfi og spyrja hvernig það gæti litið út ef við gætum hannað það upp á nýtt, frá grunni. Eftir mína upplifun held ég að kerfið gæti verið miklu betra og skilvirkara ef sjúkraþjálfarar hefðu meira frelsi í því hvernig þeir vinna.

Sem dæmi þá upplifði ég oft að sjúkraþjálfarar/læknar væri nokkuð einangraðir og ættu erfitt með að bera mál undir aðra. Ég hitti einhverja sem töldu sig ekki þurfa að fá annað álit en svo var líka sjúkraþjálfari sem benti mér á að kerfið byði í raun ekki upp á slíkt. Einhver þarf jú að greiða fyrir tímann/vinnuna sem fer í að bera saman bækur. Kerfið er því hannað þannig að það hamlar því að fólk vinni saman og fái annað álit. En betur sjá augu en auga og alls staðar færist teymisvinna í vöxt. Hvers vegna ætti það ekki að eiga við á þessu sviði líka? Þekking og færni fólks er svo mismunandi og það er beinlínis ekki hægt að ætlast til þess að hver einasti sjúkraþjálfari geti greint öll þau ólíku vandamál sem stoðkerfið býður upp á og það hjá svo ólíkum hópum sem konum, körlum, kvár, börnum, ungum, öldnum, kyrrsetufólki og íþróttafólki. Og ekki nóg með það, þegar trúverðug greining liggur fyrir þarf sá hinn sami líka að vita hvaða meðferðarform skilar bestum árangri og kunna að beita því. Það er eiginlega óskhyggja að halda að það sé raunhæft. 

Hraðinn í kerfinu er eitthvað sem mætti staldra við og skoða nánar. Hvaðan kemur eiginlega þessi hálftími sem skjólstæðingar fá með sínum sjúkraþjálfara? Eru til rannsóknir sem sýna að 30 mínútur sé ákjósanlegur tími og nægilega langur til að skila árangri? Væri betra ef sjúkraþjálfari fengi færri skjólstæðinga á dag, hefði meiri tíma með hverjum og einum og gæti útskrifað þá fyrr? Ef hverjum sjúkraþjálfara er gert að hitta tugi eða jafnvel hundruði skjólstæðinga á viku segir það sig sjálft að þjónustan verður ansi færibandaleg og vinnuálag mikið. 

Slagurinn milli SÍ og sjúkraþjálfara snýst um greiðslur fyrir veitta þjónustu en enginn spyr skjólstæðinga kerfisins hvort þeir séu ánægðir með þjónustuna og hverju þeir myndu vilja breyta. SÍ ætti að horfa meira á hvað fæst fyrir peninginn og hvort hægt sé að ná betri árangri með því að gefa sjúkraþjálfurum meira frelsi til að vinna með öðrum hætti og gera í staðinn kröfu um árangur. Árangurinn er einfaldlega mældur í ánægju skjólstæðinganna.  

Uppgjör við útskrift 

Það hlýtur að vera mjög mikilvægt að sjúkraþjálfarar fái að vita hvers vegna skjólstæðingur hættir, þ.e. ef ekki fer fram eiginleg útskrift. Það getur vissulega þýtt að árangur hafi náðst en það getur líka verið að skjólstæðingnum hafi versnað og hafi af sjálfsdáðum siglt áfram í kerfinu – nú eða gefist upp.

Þegar ég hafði samband við sjúkraþjálfara eftir meðferð sem fór illa, og lét hann kurteislega vita að eftir á að hyggja hefðu æfingarnar verið allt of erfiðar fyrir mig, þá kom viðkomandi alveg af fjöllum. Hann hefði á löngum ferli aldrei fengið kvörtun og taldi alls ekki að meðferðinni væri um að kenna hvernig fór.  Þarna er veikleiki í kerfinu sem er beinlínis hættulegur. Hvernig eiga sjúkraþjálfarar að læra af mistökum (og allir gera mistök, það er óhjákvæmilegt) ef þeir eru ekki upplýstir um upplifun skjólstæðingsins?  

Mér fannst áhugavert, en þó í anda fagmennskunnar í bakklínikinni Hollandi, að fólk er látið fylla út könnun að meðferð lokinni til að hægt sé að meta hvernig það upplifði þjónustuna. Á heimasíðunni eru einnig aðgengilegar upplýsingar um það hvernig fólk getur sent inn athugasemdir/kvartanir. Ég fór í myndatöku á mjöðm í Bretlandi og upplifði sambærilegt. Á mjög áberandi stað við innganginn var skilti þar sem fólki var bent á, og það hvatt til, að senda kvörtun ef það hefði eitthvað við þjónustuna að athuga. Ég hef aldrei rekist á slíkt hér á landi. 

Hvar eru gögnin? 

Einn veikleiki kerfisins er líka hversu er djúpt á öll gögn. Upplýsingar um greiningar og meðferðir eru fastar í tölvu lækna og sjúkraþjálfara og skjólstæðingurinn fær aldrei neitt í hendur nema biðja sérstaklega um það og þarf jafnvel að mæta á staðinn. Engin gögn fylgdu mér frá einum sjúkraþjálfara til þess næsta, meira og minna allt var munnlegt og einhvern veginn óreiðukennt, rétt eins og enginn sé í raun minn umboðsmaður í þessu öllu.  

Óháð því hvaða kvilli hrjáir fólk þá ættu öll gögn að fara bæði til heimilislæknis og til skjólstæðings. Ég þekki nokkur dæmi þar sem láðst hefur að tilkynna fólki niðurstöður úr rannsóknum og þar sem aldrei var haft samband töldu viðkomandi að allt hefði komið vel út, en svo var ekki raunin. Mistök verða og stundum falla mál á milli en líkurnar á slíku minnka ef fólk fær gögnin send til sín. Þá auðveldar það alla yfirsýn. Ég gæti þannig gefið nýjum sjúkraþjálfara aðgang að mínum gögnum sem væru öll aðgengileg á einum stað. Hann gæti séð hvaða greiningar hafa verið settar fram, hvaða meðferðir hafa verið reyndar og hverju þær hafa skilað. Heimilislæknirinn minn hefði líka aðgang að þessum upplýsingum og það myndi auðvelda honum að stýra mér í rétta átt.   

Breskt verkefni 

Þetta er aðeins út fyrir efnið en hér er dæmi hvernig tiltekin þjónusta í heilbrigðiskerfinu er tekið föstum tökum og vel fylgst með því hverju það skilar. Árið 2016 fékk ég gefins bókina Thrive eftir David M. Clark og Richard Layard. Ég fór í framhaldinu á mjög áhugaverðan fyrirlestur sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík þar sem sálfræðingurinn David M. Clark sagði frá því að bresk stjórnvöld hefðu ákveðið að bjóða upp á skipulagða sálfræðiþjónustu (hugræna atferlismeðferð) skjólstæðingum að kostnaðarlausu. Nóg væri til af gögnum sem sýndu þjóðhagslegan ávinning af því að bæta geðheilsu þjóðar, að ekki væri talað um lífsgæði þeirra sem þjást af kvíða og þunglyndi. Það sem var ekki síst áhugavert var nálgunin á verkefnið sem kallast „Improving Access to Psychological Therapies“.

David Clark benti á að þar sem verið væri að setja heilmikið skattfé í verkefnið væri áóbyrgt að mæla ekki árangurinn. Ef skjólstæðingur hætti t.d. í meðferð þurfti að skrá það og viðkomandi að útskýra hverju sætti. Árangur af hverri meðferð var metinn og skráður og gerður opinber (eftir landsvæðum). Umræða um geðheilbrigðismál hefur verið hávær og ekkert bendir til að eftirspurn eftir þjónustunni fari minnkandi. Ég skil að vissu leyti tregðu við að setja fjármagn í aukna þjónustu ef ekki eru til neinar aðferðir til að meta gæði og árangur. En ef við vitum að góð geðheilbrigðisþjónusta skilar sparnaði til lengri tíma og bætir lífsgæði fólks af hverju ættum við þá ekki að fara að dæmi Breta? Sjá hér.


by

Start a Blog at WordPress.com.