Með því lærdómsríkasta sem ég upplifði í þessu veseni öllu var tveggja vikna meðferð á hollenskri bak klíník Spine & Joint í Rotterdam. Ég fann hana fyrir algera tilviljun þegar ég var að hlusta á þetta viðtal við Andry Vleeming, mikinn fræðimann um spjaldliði. Þetta var stuttu eftir að ég hafði farið til bæklunarlæknis nr 3. sem taldi helst að hægri spjaldliður væri rót vandans. Þarna var loksins komin trúverðug greining en mér gekk illa að finna einhvern sem vissi hvernig ætti að eiga við þetta vandamál.
Ég ákvað því að læra eins mikið og ég gæti sjálf sem leiddi mig á þetta hlaðvarp. Það var jú ekki verra að fá upplýsingarnar beint frá aðal sérfræðingnum. Á einhverjum tímapunkti í viðtalinu fer Andry Vleeming að tala um „our Back clinic in Rotterdam”. Ég sperrti eyrun, gúgglaði í snarhasti og fann vefsíðuna. Það vakti athygli mína að þarna var ekki bara talað um bak- og hálsverki heldur líka „bekken“ (mjaðmagrind) en ég uppgötvaði síðar að þessi klínik var í upphafi eingöngu hugsuð fyrir konur sem glímdu við vanda eftir meðgöngu. Meðferð við spjaldliðsvanvirkni byggir á kenningum Vleemings en í dag eru bak- og hálsvandamál einnig undir.
Þarna eygði ég raunverulega von um hjálp og sendi tölvupóst á uppgefið netfang. Morguninn eftir var komið svar frá yfirmanni klíníkinnar sem spurði mig nánar út í málið. Hófust þá nokkur tölvupóstsamskipti þar sem hann vildi reyna að hjálpa mér án þess að ég þyrfti að leggja land undir fót. Hann sagði að fyrsta skref væri að að ná tengingu við djúpu magavöðvana (sama ráðlegging og hjá lækni nr 3) en mér gekk illa með það og horfði á ófá youtube myndbönd án árangurs.
Treð mér í meðferð
Eftir einhver samskipti sagðist ég geta komið til Hollands en yfirmaðurinn taldi það of mikið vesen fyrir mig, of dýrt og ekki víst að þau gætu hjálpað. Í undantekningartilfellum hefði þó verið sett saman tveggja vikna prógram fyrir útlendinga en annars væri prógrammið átta vikur. Fór á endanum svo að ég sagðist verða að fá að mæta á staðinn. Það væri beint flug frá Akureyri til Rotterdam og við hjónin gætum allt eins eytt sumarfríinu í Hollandi. Ég tróð mér því hálfpartinn þarna inn og fann á viðbrögðunum að þetta var nokkuð frekt af mér.
Mikið lagt í greiningu
Í ljós kom að yfirmaðurinn er sjúkraþjálfari og virtur fræðimaður, með, ekki síst, þekkingu á spjaldliðum/mjaðmagrind. Ég mætti í skoðun á föstudegi en ég hafði þá þegar svarað spurningum sem ég hafði fengið sendar og var auk þess búin að rekja mína raunarsögu í fyrri tölvupóstsamskiptum. Töluverðar upplýsingar lágu því þegar fyrir. Fyrst voru gerð einhver próf með nemum til að skoða hreyfimunstur, síðan svaraði ég tveimur spurningarlistum (annar til að meta hreyfigetu og færni og hinn til að meta verki), auk einhverra fleiri spurninga. Því næst var ítarleg líkamsskoðun með öllu sem því tilheyrir. Að þessu loknu var ég búin að fara í viðameiri skoðun en nokkru sinni áður og átti ekki von á meiru þannig séð. Þá tók hins vegar við ítarlegt viðtal þar sem ég var spurð spjörunum úr. Það var frekar nýtt fyrir mér að sjúkraþjálfari eða læknir væri að spyrja mig út úr, yfirleitt var því öfugt farið. Þetta var án efa mikilvægasti hluti þessa ítarlega skoðunarferlis. Ég uppgötvaði svo margt í þessu viðtali, ekki síst varðandi mínar meðgöngur og fæðingar og áhrif grindargliðnunar á stoðkerfið. Sjá meira um það hér.
Fæ skriflega greiningu í hendur
Skoðunin var á föstudegi og svo átti ég að mæta í fyrsta tíma á mánudegi. Ég fékk greininguna senda síðar sama dag, þ.e. á föstudeginum og var beðin að lesa hana yfir og ef mér þætti eitthvað skrítið gætum við rætt það á mánudeginum. Þetta fannst mér frábært og mér fannst ekki síður faglegt að vera sérstaklega boðið að hafa skoðun á greiningunni.
Á mánudeginum mætti ég klár í slaginn. Í fyrsta tíma kom í ljós að ég gat með engum hætti virkjað þessa djúpu magavöðva (Transversus abdominus). Það var talið fyrsta skrefið áður en lengra væri haldið, svo nú var öllum brögðum beitt. Mér var sagt að hósta eða hlæja því þá spennast þessir vöðvar. Við fórum í eitthvað rými með box-púða því með því að kýla (í mínu tilfelli laflaust) þá ættu þessir vöðvar að spennast. Eftir ýmsar tilraunir náði ég loksins tengingunni og í næsta tíma var ég látin gera æfingar liggjandi sem svo þróuðust yfir í standandi æfingar við trissu.
Ég fór líka í stóran æfingasal þar sem ég var látin ganga með stafi (Nordic walking kölluðu þau það). Í eitthvert skiptið spurði sjúkraþjálfarinn hvaða íþróttir ég hefði stundað og sýndi mér herbergi með alls kyns dóti. Við gripum badmintonspaða og spiluðum aðeins. Ég spurði út í þetta og fékk þau svör að þau vildu að fólk færi aftur að hreyfa sig eins og það var vant og sæi að það væri öruggt. Í síðasta tímanum bað sjúkraþjálfarinn mig að fara upp á klifurvegg og þræða neðstu núbbana. Mér leist ekki of vel á það, þá þyrfti ég að vera með allan þunga á öðrum fæti sem mér var illa við. Ég lét þó tilleiðast og náði að koma mér á milli eins og hrædd kónguló. Fór svo að ég prufaði aftur og þetta var með betri æfingum sem ég hef gert. Það er ekki hægt að klifra nema nota allan líkamann og þetta er svo margfalt eðlilegri hreyfing en margar æfingar sem ég hafði verið að gera með misgóðum árangri. Eftir þessa stuttu reynslu alla varð ég miklu hrifnari af æfingum sem eru „functional“, þ.e. líkja eftir eðlilegum hreyfingum sem við notum í lífinu. Að ganga hliðarskref með teygju um ökklann er t.d. ekki functional æfing. Hentar örugglega mörgum en tæpast æskileg fyrir konu með veikleika í mjaðmagrind.
Áhersla á fræðslu
Eitt markmið hjá Spine & joint er að fræða fólk svo það geti hjálpað sér sjálft að meðferð lokinni. Hver tími gat verið allt af tveir klukkutímar, það var því aldrei neitt stress og nægur tími til að læra og gera æfingar, spyrja og fara yfir stöðuna. Það voru svo mikil forréttindi að hafa aðgang að þeirri miklu spjaldliðs-/mjaðmagrindarþekkingu sem þarna var og ná loksins að skilja betur hvað í fjáranum var í gangi.
Engin áhersla á „manual therapy“
Það var engin „manual therapy“ (bekkmeðferð) í boði og ég skyldi það þannig að slík meðferð gæti gert fólk meira háð sjúkraþjálfun. Kannski ekki alveg rétt skilið hjá mér en eitthvað í þá veru. Persónulega finnst mér manual therapy eiga rétt á sér en ég skil algerlega pælinguna því ég hafði sjálf upplifað að finnast eins og ég þurfi að láta „gera eitthvað“ við mig hvort sem það var nudd, nálastungur, rétting eða hvað það var.
Eftir tvær vikur fékk ég yfirlit yfir æfingarnar sem ég hafði gert og ráðleggingar um framhaldið, allt skriflegt. Þá sá ég að í hverjum tíma hafði verið skrifað niður hvaða æfingar ég hafði verið látin gera og hvernig þær hefðu reynst, svo sem hvort ég væri verri, betri eða eins. Þetta voru nýmæli eins og svo margt í þessari meðferð. Ég á meiri gögn eftir þessar tvær vikur í Hollandi en samanlagt eftir öll árin í heilbrigðiskerfinu heima.
Þetta var ómetanleg reynsla en mér fannst ég þó bara rétt ná að skrapa í yfirborðið. Eftir tvær vikur leið mér eins og ófleygum unga sem væri ýtt út úr hreiðrinu. Yfirmaðurinn sem hafði haldið utan um mitt mál og verið með mig í nokkrum tímum var alveg einstakur. Hann er virtur fræðimaður, sérfræðingur í spjaldliðum og yfirmaður þessarar virtu stofnunar en jafnframt mjög auðmjúkur. Allt sem ég upplifði þarna var svo skynsamlegt að ég skil hreinlega ekki af hverju þetta módel er ekki alls staðar í boði. Samandregið byggir álit mitt á hollensku klíníkinni á eftirfarandi atriðum:
- Greiningarferlið var vandað (viðtal, skoðun, test, staðlaðir spurningarlistar). Sjúkraþjálfarar sjá um sjálfar meðferðirnar og eru mjög færir á sínu sviði en greiningin er framkvæmd af yfirmanni klínikinnar sem er mjög fær í að greina.
- Meðferð takmarkast við átta vikur sem er talinn nægur tími, eða eins og mér var sagt, „Ef við getum ekki hjálpað fólki á átta vikum, getum við ekki hjálpað því“.
- Fólk mætir 2-3 í viku og ég var allt að tvo tíma í senn. Það gefst því nægur tími til að sinna því sem þarf að sinna. Allajafna er einn sjúkraþjálfari með tvo skjólstæðinga. Þá voru einhver fleiri úrræði eins og sálfræðingur á staðnum.
- Greining er skrifleg og fólk fær hana í hendur áður en meðferð hefst. Það liggur því fyrir hvert markmiðið með meðferðinni er, þ.e. hvaða vanda er verið að vinna með. Skjólstæðingur og sjúkraþjálfari eru á sömu blaðsíðu.
- Æfingarnar voru „functional“, þ.e. engar furðu æfingar. Lögð var áhersla á að finna rót vandans og fólki sagt að góðar líkur væru á árangri. Ekkert hræðslutal eða ástand fólks ekki talað niður. Einnig var áhersla lögð á öndun og slökun.
- Um er að ræða meðferð fyrir fólk sem er búið að flækjast um án þess að ná árangri svo þetta er allt annað og meira en hálftími hér og þar eins og í hefðbundnum meðferðum. Þá er kostur að vera ekki lagður inn á stofnun sem er dýrt úrræði þótt það sé vissulega mikilvægt fyrir tiltekna hópa.
- Í lok meðferðar er fólk látið fylla út sömu spurningarlista og í upphafi til að hægt sé að meta árangur af meðferðinni. Þá er það einnig látið svara könnun um þjónustuna, hvað var gott hvað mætti bæta. Ég veit ekki hvort slíkt þekkist yfirhöfuð í íslensku heilbrigðiskerfi.