Góð greining gulli betri

Eitt af því sem mér finnst svo augljóst þegar ég horfi til baka, er hvað greiningarferlið er mikilvægt. Meðferð hverju sinni hlýtur jú að byggja á greiningu og því vandaðri sem hún er því meiri líkur á að meðferðin heppnist. 

Ef fólk fengi greiningu sem byggir á ítarlegri skoðun þegar vandamál er enn á frumstigi (en þó það slæmt að það er komið í sjúkraþjálfun) þá myndi það eflaust spara háar upphæðir til lengri tíma. Að ekki sé talað um það mikilvægasta, að fólk ætti meiri möguleika á að ná sér hratt og vel.  

Ég lenti allt of oft í því að vera í meðferð án þess að fyrir lægi greining, hvað þá skýrt plan og tímarammi. Fram að sumri 2019 vissi ég í raun ekki hvernig almennilegt greiningarferli færi fram. Ég vissi ekki að til væru alls kyns staðlaðir spurningarlistar og margvísleg test/próf sem hjálpa til við að þrengja leitina.

Þegar ég fór til Hollands (sjá meira um það hér) voru liðin hátt í þrjú og hálft ár frá því að ég fór fyrst til sjúkraþjálfara og tvö ár frá því að ég sá fyrsta lækninn. Í Hollandi var ég í fyrsta skipta látin fylla út staðlaða spurningarlista bæði til að meta verki og hreyfifærni. Ég fór í ítarlega skoðun og að henni lokinni í mjög ítarlegt viðtal sem var alveg nýtt. Þá upplifði ég þau nýmæli að fá skriflega greiningu í hendur og var beðin að lesa hana yfir og láta vita ef mér þætti eitthvað skrítið. Sjúkraþjálfarinn sem sá um greiningarferlið kunni vel til verka og virtist sjá um allar greiningar. Meðferðin var síðan í höndum annarra sjúkraþjálfara sem höfðu þá vandaða greiningu til að styðjast við. 

Sagan skiptir máli

Ég áttaði mig ekki á því fyrr en í Hollandi hvað sagan mín skiptir miklu máli í greiningarferlinu. Ég hafði vissulega oft þulið upp mína þrautagöngu en yfirleitt á hundavaði og án þess að fá nokkrar spurningar að ráði. Mér fannst því áhugavert þegar vinkona mín sagði mér frá reynslu sinni. Hún glímdi við mikla bakverki og það tók hana tíu ár að fá svör. Hún fór þá í fyrsta skipti í ítarlegt viðtal og var greind með hryggikt (sem talin er vangreint í konum). Hún hafði hreinlega ekki upplifað áður að það væri raunverulega hlustað á hana og brotnaði nokkrum sinnum saman í viðtalinu.

Ég held að það sé ekki hægt að kenna tímaskorti um það hversu lítil áhersla er lögð á ítarlega greiningu. Fólk getur verið í sjúkraþjálfun svo mánuðum og árum skiptir þannig að tveir klukkutímar í greiningu eru dropi í hafið.

Meiri áhersla á meðferð en greiningu

Almennt er reynsla mín sú að mjög mikil áhersla sé á meðferðir en mun minni á greiningu, fyrir utan myndgreiningu hugsanlega. Meðferðarformið hverju sinni byggir síðan að miklu leyti á því hvaða „skóla“ viðkomandi sjúkraþjálfari aðhyllist, eða jafnvel bara hvað er nýjasta „æðið“, hvort sem það er ný græja eða nýjasta námskeiðið.

Sumir eru mjög fókusaðir á æfingar (og æfingasjúkraþjálfarar skiptast síðan í marga flokka), aðrir einbeita sér að „bekk-meðferðum“ (nudd, nálastungur, tog, hnykk, höfuðbein og spjald,…) aðrir eru í græjunum (leiser, nuddbyssum, þrýsti… og þess háttar). Sumir eru mjög uppteknir af því sem sést á myndum og aðrir ekki. Þá eru sífellt fleiri sem aðhyllast nýrri fræði „pain science“ sem gerir ráð fyrir að orsök verkja þurfi alls ekki að vera stoðkerfistengd. Margir eru væntanlega blanda af þessu öllu en mín reynsla er að sjúkraþjálfarar velji sér hillu, sem er eðlilegt. Ég hitti marga sjúkraþjálfara sem voru virkilega færir í því meðferðarformi sem þeir stunduðu en það hjálpaði lítið ef greining lá ekki fyrir eða var beinlínis röng. 

Hver á að greina?

Þrátt fyrir að vera reynslunni ríkari þá er ég ennþá engu nær um það hver það er í heilbrigðiskerfinu sem á að greina, þ.e. hvert er hlutverk bæklunarlækna þegar kemur að greiningu stoðkerfisvanda og hvert er hlutverk sjúkraþjálfara. Til að gera langa sögu stutta þá komst ég að því að allt veltur á meðferðaraðilanum. Ég sá bæklunarlækna sem gerðu enga tilraun til að skoða mig og ég hitti bæklunarlækni sem virkilega kunni til verka. Ég fór til sjúkraþjálfara sem gerðu enga tilraun til að greina og líka til sjúkraþjálfara sem lagði mjög mikla áherslu á greiningu og svo allt þar á milli. Ég fór reyndar til sjúkraþjálfara sem er bara í greiningum en fékk mjög lítið út úr því. Þá skil ég ekki ennþá hlutverk heimilislæknis því hann gerir beiðnir en fær engin gögn í hendur frá sjúkraþjálfurum um greiningar, meðferðir og árangur/framvindu – ekki frekar en skjólstæðingurinn sjálfur. 

Þar sem mér fylgdu engin gögn var ég alltaf bara ein til frásagnar um það hvað hefði gengið á á fyrri stigum. Í þeim tilfellum sem ég kallaði eftir gögnum var lítið á þeim að græða. Það kom mér á óvart þegar ég uppgötvaði að það hafði í raun enginn heildarsýn yfir málið mitt. Ég var því einhvern veginn alltaf að byrja upp á nýtt. Aldrei fóru nein samskipti fram á milli þeirra sem voru að reyna að hjálpa mér og afar sjaldgæft að sjúkraþjálfari endurmæti stöðuna, segði sig frá verkefninu og vísaði annað, nú eða bæri mitt mál undir kollega. Ef mér batnaði ekki, eða jafnvel versnaði, virtist viðhorfið vera að ég væri flókið tilfelli en ekki að greiningin eða meðferðin væri vandamálið. 

Einkennin ekki svo dularfull

Nokkrum mánuðum eftir að ég hafði verið í Hollandi fór ég til sérfræðings hér heima í mjaðmagrind/grindarbotni til að fá frekari hjálp með æfingar. Þá var ég látin fylla út staðlaðan „mjaðmagrindar-spurningarlista“ (pelvic girdle questionnaire) þar sem m.a. var spurt hversu erfitt ég ætti með að ýta innkaupakerru. Eitt af því sem ég hafði þurft að hætta (tveimur árum áður) var að fara út í búð og þótti mér það sérstaklega skrítið. Ég fékk aldrei nein svör við þessu önnur en að gera æfingar. Það kom mér því mjög á óvart að þetta væri þekkt einkenni og að til væri spurningarlisti með nákvæmlega þessu atriði sem aðeins örfáir sjúkraþjálfarar/læknar virðast þekkja til. Þá gat ég tengt við mjög margt annað á listanum svo sem að geta ekki ýtt hlut á gólfi með öðrum fæti, að eiga mjög erfitt með að ganga, sitja og standa lengur en ákveðinn tíma, erfitt með að bera hluti, finnast eins og fóturinn láti undan og einnig að gera alla hluti mjög hægt. 

Þarna var ég þegar komin með spjaldliðsgreiningu og þessi listi staðfesti svo sem það sem ég þá þegar vissi. Það var þó ótrúlega áhugavert, en líka sorglegt, að uppgötva svona seint í ferlinu að einkennin mín væru vel skilgreind í fræðunum. Þetta var þá kannski ekki svona dularfullt eftir allt saman. 

Krafa um vandaða greiningu

Það er margt sem mér finnst að mætti bæta í stoðkerfis-heilbrigðis-kerfinu en ef ég ætti að velja eitthvað eitt þá er það áherslan á greiningu. Vissulega er mjóbaks- og mjaðmasvæðið flókið og ef greining væri auðveld væru bakverkir ekki meðal flóknustu og dýrustu heilbrigðisvandamála á Vesturlöndum. Þá getur vel verið að góð greining skili samt sem áður ekki ótvíræðri niðurstöðu, en það væri þá í öllu falli niðurstaða byggð á gögnum og viðurkenndri aðferðarfræði.

Hér að neðan eru nokkur ráð sem byggja á minni reynslu.

  • Ekki byrja í meðferð nema greining liggi fyrir. Greining byggir í það minnsta á líkamsskoðun, spurningarlistum og ítarlegu viðtali. Athugaðu að það er eðlilegt að þú þurfir að svara mörgum spurningum. Greining byggir ekki síst á sögunni þinni og hvernig hin og þessi hreyfing/álag fer í þig. Ef læknir/ sjúkraþjálfari sýnir sögunni þinni lítinn áhuga og spyr engra spurninga ættu að hringja viðvörunarbjöllur. 
  • Fáðu skriflega greiningu. Þetta er mjög mikilvægt því þá sérðu svart á hvítu hvað sjúkraþjálfarinn/læknirinn er að hugsa og hvort einhver misskilningur hafi átt sér stað í samskiptum. Þetta minnkar líka líkur á að það sé verið að henda fram alls kyns kenningum án þess að mikil hugsun liggi að baki. Ef læknir/sjúkraþjálfari getur ekki sett fram neina greiningu er rétt að spyrja í hverju meðferð eigi þá að felast. Ef þú skiptir um sjúkraþjálfara skaltu biðja um að fá gögn í hendur um allt sem á undan er gengið. 
  • Allar spurningar eiga rétt á sér. Ef læknir/sjúkraþjálfari fer undan í flæmingi þegar þú spyrð spurninga eða þér finnst svarið skrítið/snubbótt eða langsótt er það ekki vegna þess að spurningin sé vitlaus. Ég lenti oft í því að fá ekki svör eða skrítin svör og kenndi því um að annað hvort væru spurningarnar mínar kjánalegar eða ekki nógu skýrar. Ég varð fyrir hugljómun þegar ég spurði bæklunarlækni 3 – allt að því í hálfkæringi – hvort ég gæti verið með „ischiofemoral impingement“. Hann sagði það ólíklegt og útskýrði fyrir mér hvaða einkenni ættu þá að vera til staðar. Ég fattaði þarna að svona svarar fólk sem veit svarið því ef það veit það ekki fer spurningin fyrir ofan garð og neðan og svörin verða þá eftir því. Nietzsche orðar þetta vel; one hears only those questions for which one is able to find answers.

by

Start a Blog at WordPress.com.